Næsti fundur í kjaradeilu ljósmæðra hefur verið boðaður á fimmtudaginn en æ fleiri ljósmæður bætast í hóp þeirra sem hafa sagt upp störfum. Hildur Sólveig Ragnarsdóttir er ein þeirra ljósmæðra á fæðingarvakt landspítalans sem sagði upp í síðustu viku en þar að auki munu þrjár láta af störfum næstu mánaðarmót.
„Ég held að við séum einar sex-sjö sem hafa lagt inn uppsagnarbréf. Þetta er stór hópur, við erum kannski tíu-ellefu, en þetta er stórt hlutfall af þeim sem eru starfandi á fæðingarvaktinni þannig að þetta lítur ekki vel út,“ segir Hildur Sólveig.
Náist góðir samningar muni hún íhuga að draga umsókn sína til baka. Það eigi þó ekki við um allar þær ljósmæður sem sagt hafa upp störfum.
„Staðan eins og hún verður núna 1. júlí hún verður mjög erfið. Það eru þrjár að fara núna hérna af fæðingarvaktinni, einar tíu eða ellefu niðri á sængurkvennadeild. Þetta verður mjög erfið staða á báðum deildunum vegna þess að auðvitað hefur ein deild áhrif á hina,“ segir hún.
Erfið staða getur einnig skapast á sónardeild Landspítalans þar sem minnst ein ljósmóðir hefur sagt upp störfum og fleiri hafa í hyggju að segja upp samkvæmt heimildum fréttastofu. Þar starfa aðeins sjö ljósmæður sem geta sinnt tólf vikna sónarskoðun en til þess þarf tveggja ára viðbótarþjálfun.
Ekki fengust upplýsingar frá Landspítalanum um heildarfjölda uppsagna við vinnslu fréttarinnar.