Iceland Airwaves. Dikta. Norðurljós í Hörpu
Þrátt fyrir að Dikta sé þekkt sem ein besta tónleikasveit landsins átti hún í mestu vandræðum með að ná upp stemningu í Norðurljósasalnum. Kannski var sveitin þreytt eftir tónleikaferð sína um Þýskaland. Ekki hjálpaði samt til að helmingur tónleikagestanna sat á miðju gólfinu nánast allan tímann á meðan hinn helmingurinn stóð allt í kring. Aðeins nokkrar hræður stóðu uppi við sviðið og langmesta lífið var í þeim.
Stórundarlegt svo ekki sé meira sagt. Einnig hafði það sín áhrif að meginuppistaðan í tónleikadagskránni voru gömul og margspiluð Diktu-lög. Ferskleikann vantaði og þegar áhorfendur eru farnir að hrópa á sveitina að spila ný lög er ljóst að breytinga er þörf. Tvö ný lög fengu þó að fljóta með og þau voru fín, sér í lagi það fyrra, og lofa þau góðu fyrir væntanlega plötu. -fb
Dikta á Iceland Airwaves: Stemningsleysi
