Erlent

Bönkum meinað að greiða arð og bónus

Stefan Füle og José Manuel Barroso Kynntu nýja leið út úr kreppunni meðan Slóvakía lét bíða eftir samþykki síðustu úrræða.fréttablaðið/AP
Stefan Füle og José Manuel Barroso Kynntu nýja leið út úr kreppunni meðan Slóvakía lét bíða eftir samþykki síðustu úrræða.fréttablaðið/AP
Bankar eiga hvorki að greiða út arð né kaupauka fyrr en varasjóðir þeirra eru orðnir nógu digrir til að standast þær nýju kröfur sem Evrópusambandið hyggst gera til þeirra.

Þetta sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á miðvikudag þegar hann kynnti nýjar og enn öflugri aðgerðir til bjargar Grikklandi, evrunni og bönkum aðildarríkjanna.

Meðal annars á að taka af allan vafa um að Evrópusambandið veiti Grikkjum þá aðstoð, sem þarf til að halda efnahagslífi Grikklands gangandi. Þá á að efla enn frekar neyðarsjóð ESB og hraða stækkun hans. Enn fremur á að grípa til samhæfðra aðgerða til að styrkja banka í Evrópusambandinu, meðal annars með því að aðstoða þá við að útvega sér fé í nægilega stóra varasjóði.

Öll sautján ríki evrusvæðisins þurfa að samþykkja þessar nýju tillögur áður en hægt verður að hrinda þeim í framkvæmd, sem er langt og strangt ferli

Síðast í gær samþykkti Slóvakía þær aðgerðir, sem ákveðið var að ráðast í síðasta sumar, en þær fólust meðal annars í verulegri stækkun neyðarsjóðs Evrópusambandsins.

Stjórnarandstaðan í Slóvakíu hafði fellt þær á þriðjudag, með þeim afleiðingum að ríkisstjórn landsins hrökklaðist frá völdum, en eftir það var þinginu ekkert að vanbúnaði að samþykkja stækkun neyðarsjóðsins. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×