Innlent

Fréttaskýring: Stjórnarflokkarnir langt frá meirihluta

Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna eykst en Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn tapa fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stjórnarflokkarnir eru samanlagt með 42,5 prósenta fylgi og 28 þingmenn.
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna eykst en Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn tapa fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stjórnarflokkarnir eru samanlagt með 42,5 prósenta fylgi og 28 þingmenn. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Hvernig hefur fylgi stjórnmálaflokkanna þróast samkvæmt könnunum Fréttablaðsins?

Stjórnarflokkarnir eru samanlagt með stuðning 42,5 prósenta kjósenda og fengju samtals 28 þingmenn af 63 samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stjórnin myndi samkvæmt þessu falla yrði kosið nú.

 

Alls tóku 54,5 prósent afstöðu til spurningar um fylgi flokka í könnuninni. Um 15 prósent þeirra sem hringt var í sögðust óviss um hvaða flokk þau myndu kjósa yrði gengið til þingkosninga nú. Tæplega 18 prósent sögðust myndu sitja heima eða skila auðu og 11 prósent kusu að svara ekki spurningunni.

 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr með mestan stuðning. Um 44 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni myndu kjósa flokkinn yrði gengið til kosninga nú. Stuðningur við flokkinn hefur aukist um 2,8 prósentustig frá síðustu könnun Fréttablaðsins, sem gerð var 24. febrúar síðastliðinn. Þetta er langt yfir 23,7 prósenta kjörfylgi flokksins.

Yrðu þetta niðurstöður kosninga fengi flokkurinn 29 þingmenn, en fékk 16 í þingkosningunum 2009.

 

Samfylkingin fengi samkvæmt skoðanakönnuninni stuðning 24,8 prósenta landsmanna yrði gengið til kosninga nú. Það er 1,2 prósentum yfir fylgi flokksins í könnun Fréttablaðsins í febrúar, en talsvert undir 29,8 prósenta kjörfylgi.

 

Fengi flokkurinn þennan stuðning í kosningum yrðu þingmenn flokksins 16 talsins, en í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn kjörna.

 

Vinstri græn njóta nú stuðnings 17,7 prósenta landsmanna samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Fylgi flokksins hefur aukist um tvö prósentustig frá síðustu könnun, en er enn talsvert undir 21,7 prósenta kjörfylgi flokksins.

 

Vinstri græn fengju samkvæmt þessu 12 þingmenn, en flokkurinn fékk 14 í síðustu kosningum.

 

Framsóknarflokkurinn tapar fylgi milli kannana Fréttablaðsins. Um 9,4 prósent styðja flokkinn samkvæmt könnuninni. Það eru um 2,3 prósentustigum færri en samkvæmt könnun Fréttablaðsins í febrúar. Framsóknarflokkurinn fékk 14,8 prósenta fylgi í síðustu kosningum. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins fengi Framsóknarflokkurinn sex þingmenn yrði gengið til kosninga nú, en fékk níu í síðustu kosningum.

 

Hreyfingin nýtur stuðnings 4,1 prósents þeirra sem afstöðu taka í könnun Fréttablaðsins, sem er lítilleg aukning frá síðustu könnun. Flokkurinn bauð ekki fram í síðustu kosningum, en varð til með klofningi Borgarahreyfingarinnar. Flokkurinn er því með þrjá þingmenn í dag, en næði engum manni á þing yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins.

 

Hringt var í 800 manns dagana 5. og 6. apríl. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

 

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk? Alls tóku 54,5 prósent afstöðu.

 

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×