Maðurinn sem játaði að hafa orðið konu að bana í kvöld þekkti fórnarlamb sitt. Maðurinn, sem er 25 ára gamall og búsettur á höfuðborgarsvæðinu, ók bifreið sinni að Landspítalanum í Fossvogi á áttunda tímanum í kvöld.
Því næst lét hann starfsfólk spítalans vita að í skotti bifreiðarinnari væri að finna lík konu.
Lögreglan var kölluð á vettvang sem handtók manninn umsvifalaust og færði á lögreglustöðina. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni játaði maðurinn að hafa orðið rúmlega tvítugri konu að bana.
Ekki er ljóst með hvaða hætti maðurinn banaði konunni eða hversvegna. Lögreglan rannsakar málið en það er á frumstigum.
Rannsóknarteymi lögreglunnar lauk störfum fyrir utan Landspítalann á tíunda tímanum í kvöld og sendi í kjölfarið út yfirlýsingu um málið.
