Erlent

Bjó sig undir átök við herinn

Pakistanska þingið Gilani forsætisráðherra hafnar ásökunum um vanhæfi leyniþjónustunnar.nordicphotos/AFP
Pakistanska þingið Gilani forsætisráðherra hafnar ásökunum um vanhæfi leyniþjónustunnar.nordicphotos/AFP
Bandaríska sérsveitin, sem réð Osama bin Laden af dögum í Abottabad í byrjun mánaðarins, átti allt eins von á því að lenda í átökum við pakistanska herinn, enda var hún í heimildarleysi að stunda hernað á pakistönsku landsvæði.

Þessu er haldið fram í bandaríska dagblaðinu New York Times. Þar segir að á síðustu stundu hafi verið ákveðið að fjölga verulega í sérsveitinni svo hægt yrði að bregðast við árásum frá pakistönskum hermönnum.

Breska dagblaðið The Guardian heldur því síðan fram að bandarísk stjórnvöld hafi fyrir nærri áratug fengið leyfi til þess frá pakistönskum stjórnvöldum að senda hermenn gegn bin Laden og tveimur öðrum yfirmönnum Al Kaída, ef þeir fyndust á pakistönsku landsvæði. Pervez Musharraf, þáverandi forseti Pakistans, segir ekkert hæft í þessum fréttum í Guardian.

Tengsl Bandaríkjanna og Pakistans hafa versnað eftir árásina á bin Laden. Pakistanar neita því að þarlendir áhrifamenn hafi vitað um felustað bin Ladens og fordæma jafnframt árásir Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn hafa engu að síður gert fleiri árásir á Pakistan síðan, síðast í gær þegar þrír menn létu lífið af völdum sprengjuárásar frá ómannaðri bandarískri flaug í norðvesturhluta landsins. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×