Viðskipti erlent

Annað verðhrun á olíu - viðskiptin stöðvuð

Annað verðhrun varð á heimsmarkaðsverði á olíu á markaðinum í New York í gærkvöldi. Vegna hrunsins voru viðskiptin á hrávörumarkaðinum Nymex stöðvuð í fimm mínútur.

Verð á Brent olíunni féll um 3,5% og fór niður í 113 dollara á tunnuna undir lok viðskiptadagsins að því er segir í frétt um málið á Reuters. Verð á bandarísku léttolíunni féll um 5% og fór hún niður í rúma 97 dollara á tunnuna.

Þetta hrun kemur í kjölfar þess að olíuverðið lækkaði um 10% í síðustu viku og var það mesta vikulækkun í sögunni mælt í dollurum.

Svo virðist sem taugaveiklun hafi ráðið einhverju um verðfallið í gærkvöldi. Einnig kom til að margir spákaupmenn þurftu að losa sig úr stöðum sínum á markaðinum. Svo miklar sveiflur voru um tíma á olíuverðinu að eigendur Nymex tóku þá ákvörðun að stoppa viðskiptin tímabundið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×