Leikjavísir

Drake, Travis Scott og JuJu spiluðu Fortnite með Ninja og slógu áhorfsmet

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Tónlistarmaðurinn Drake sýnir á sér nýjar hliðar.
Tónlistarmaðurinn Drake sýnir á sér nýjar hliðar. Vísir/Getty
Tónlistarmennirnir Drake og Travis Scott ásamt NFL-leikmanninum JuJu Smith-Schuster gengu óvænt til liðs við tölvuleikjastreymandann Ninja í útsendingu á streymisvefnum Twitch í fyrrinótt. Þegar mest var voru 636.000 áhorfendur að streyma útsendingunni á sama tíma, en það eru langtum fleiri en í fyrra meti síðunnar, sem var 388.000 áhorfendur samtímis á einu streymi notandans Dr. Disrespect. Spiluðu kumpánarnir saman sandkassaskotleikinn Fortnite, sem gengur út á að 100 leikmenn stökkvi út úr flugfari, lendi á eyju, og spili í misstórum liðum upp á líf og dauða þar til aðeins eitt lið stendur eftir. Horfa má á upptöku af streyminu hér fyrir neðan.

Ninja er tölvuleikjaviðurnefni Tyler Blevins, en hann hefur gert það gott á streymissíðunni og er eins og stendur með þrjár og hálfa milljón fylgjenda á Twitch sem margir hverjir fylgjast með honum spila tölvuleiki reglulega. Hann er einnig með mikinn fjölda áskrifenda af streymisrás sinni og samkvæmt Forbes bætti hann við um 10-15.000 áskrifendum í kjölfar leiksins með Drake. Það þýðir að nú er hann að græða um 600.000 dali á mánuði í gegnum áskrifendur sína á Twitch, en hann fær þrjá og hálfan dal í vasann fyrir hvern greiðanda í áskrift. Þá eru ekki talin með frjáls framlög sem hann fær gegnum síðuna, né YouTube gróði hans.

Eins og fram kemur í umfjöllun Washington Post hafði Blevins talað um að Drake myndi mögulega spila með sér á næstunni, og hófust leikar á þeim tveimur að spila sem tvíeyki. Drake tilkynnti svo í tísti að þeir væru að spila sem hafði þær afleiðingar í för með sér að áhorfendafjöldinn rauk upp og að Travis Scott og JuJu gengu til liðs við þá.

JuJu var ekki lengi að tilkynna löngun sína til að spila með í kjölfar tísts Drake.

Drake hefur síðastliðinn mánuð unnið að nýrri plötu og hefur spilað Fortnite til að slaka á milli vinnustunda í upptökuverinu, sem hann eyðir flestum sínum stundum í um þessar mundir. Hann segir að sig og pródúsenta sína bara stundum þurfa að slappa af með því að spila tölvuleiki, en tekur fram að enginn þeirra sé góður í leiknum.

Tölvuleikjastreymissíðan Twitch fékk árið 2017 meira en 15 milljón einstaka daglega heimsækjendur, samkvæmt skýrslu fyrirtækisins. Fortnite var annar vinsælasti leikurinn á síðunni, ef talinn er fjöldi mínútna í áhorfi. Hér fyrir neðan má sjá upptöku af streymi fjórmenninganna.

Watch Squads with Drake, Travis and JuJu you heard me. | @Ninja on Twitter and Instagram from Ninja on www.twitch.tv





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.