Athygli Vesturlanda hefur ítrekað beinst að Rússlandi undanfarin misseri og hefur hin meinta árás á Skrípal-feðgin ekki skapað Rússum neina velvild. Þeir neita þó staðfastlega að hafa komið að árásinni.
Skrípal-feðgin fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury á Bretlandi fyrr í mánuðinum. Rannsókn hefur leitt í ljós að eitrað var fyrir þeim með taugaeitri, svokölluðu novichok-eitri, sem framleitt var og þróað í Sovétríkjunum á síðustu öld. Skrípal er Rússi en var gagnnjósnari fyrir Breta. Fyrir þær njósnir hlaut hann fangelsisdóm í Rússlandi árið 2006 en fékk hæli í Bretlandi eftir njósnaraskipti 2010.
„Við teljum Rússa ábyrga fyrir þessari svívirðilegu og fyrirlitlegu árás,“ sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þegar hún heimsótti árásarvettvang í gær. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði um sorglegt mál að ræða sem ríkisstjórn hans tæki alvarlega.
Ríkin fjögur segjast harma atburðinn í hinni sameiginlegu yfirlýsingu. „Þetta er árás á Bretland. Notkun hvaða ríkis sem er á vopni sem þessu er skýrt brot á alþjóðalögum og samningnum um bann við efnavopnum,“ sagði í yfirlýsingunni. Ríkin hvöttu Rússa til þess að svara öllum spurningum um árásina og að útskýra hvernig og hvers vegna eitrinu var beitt.
Á fundi öryggisráðs SÞ í gær sögðust Rússar aldrei hafa framleitt eða rannsakað novichok. Vissalí Nebenzía, fulltrúi Rússa, hafnaði alfarið ásökunum Breta og gaf í skyn að Bretar hefðu jafnvel sjálfir ráðist á Skripal til að koma óorði á Rússa nú þegar líður að heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem þar fer fram í sumar.
Sagðir hafa verulegar áhyggjur
Þeir 23 rússnesku erindrekar sem Bretar hafa gert að yfirgefa Bretland, og telja í raun rússneska njósnara, hafa nú örfáa daga til að koma sér heim. May greindi frá ákvörðuninni um brottvísunina á miðvikudag og sögðu Rússar í kjölfarið að þeir myndu án nokkurs vafa taka sams konar ákvörðun.Rússneski ríkisstjórnarmiðillinn RT, sem miðlar á borð við New York Times og Reuters hafa kallað hluta áróðursmaskínu Pútíns Rússlandsforseta, sögðu í gær frá því að Pútín hefði verulegar áhyggjur af „ögrandi“ afstöðu Breta. Miðillinn vitnaði þar að auki í Maríu Zakharovu, talsmann utanríkisráðuneytisins, sem sagði Breta greinilega hafa eitthvað að fela vegna þess að þeir hafi ekki sent Rússum sýni af taugaeitrinu.
Á meðal þeirra 19 Rússa sem Bandaríkjamenn tilkynntu um þvinganir gegn í gær eru þrettán sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytisins sem rannsakar afskipti Rússa af kosningunum, ákærði í febrúar. Einnig hefur hin svokallaða Netrannsóknarstofnun, oft kölluð nettröllaverksmiðja Rússlands, verið sett á svartan lista vegna afskipta af kosningunum.