Viðskipti innlent

Hlutabréf Icelandair féllu um tæpan fjórðung

Ásgeir Erlendsson skrifar
Hlutabréf í Icelandair Group féllu um tæpan fjórðung í dag eftir að afkomuviðvörun var send út fyrir opnun markaða í morgun. Samtals lækkaði því virði félagsins um 26,5 milljarða. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að lækka þurfi kostnað og auka tekjumöguleika en ekki stendur til að fækka starfsfólki. Mikilvægt sé að vanda sig svo framtíðarhorfum fyrirtækisins verði ekki spillt.

„Við höfum séð innflæði hjá Icelandair minnka eða það hefur hægst mjög á því á undanförnum dögum. Síðan hefur meðalverð, sérstaklega á Atlantshafsleiðinni, verið lækkandi, olíuverð einnig hærra og svo gengi íslensku krónunnar sem hefur áhrif líka.“ Segir Björgólfur.

Icelandair Group gaf út afkomuviðvörun fyrir opnun markaða í morgun þar sem sagði að hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta komi til með að lækka umtalsvert á árinu. EBITA félagsins kemur því til með að verða 60-70 milljónum Bandaríkjadala minni en í fyrra. Björgólfur Jóhannsson segir að ástæðuna vera margþætta meðal annars verri bókunarstöðu, hækkun á olíuverði, breytingar í alþjóðastjórnmálum og óhentuga þróun í gjaldmiðlamálum.

„Það er eðlilegt að markaður bregðist við svona neikvæðum fréttum. Við verðum að hafa í huga að þessi afkomuviðvörun er ekkert afleidd í ljósi sögunnar, þó hún sé mikil breyting á því sem var á síðasta ári og árinu þar á undan.“

Hlutabréf í félaginu tóku dýfu við opnun markaða og þegar þeir svo lokuðu aftur nú síðdegis höfðu bréf í Icelandair Group lækkað um 24% í dag. Samtals lækkaði virði félagsins því um 26,5 millj­arða eftir lækkun dagsins. Hlutabréf í Icelandair group hafa því lækkað um tæplega 57% frá því sem best var á síðasta ári. Björgólfur segir að félagið komi til með að lækka kostnað og auka tekjumöguleika.

„Við höfum verið að vinna í töluverðan tíma að ýmsum atriðum sem snúa að kostnaði og tekjumöguleikum. Auknum tekjum. Það er alveg ljóst að við erum með allt annan strúktúr í okkar uppsetningu en mörg af þeim félögum sem við erum að keppa við. Við þurfum að bregðast við á ýmsan hátt, þannig að það sé hægt að bera fargjöld betur saman en er í dag. Við þurfum að vanda okkur í þessari stöðu að spilla ekki góðum framtíðarhorfum þannig að þær aðgerðir sem við förum í spilli ekki horfum til lengri tíma.“

Sjáið þið fyrir ykkur fækkun starfsfólks?

„Við erum ekki á því stigi. Framtíðarhorfur eru góðar að okkar mati og við viljum ekki fara í aðgerðir sem spilla þeim möguleikum. “






Fleiri fréttir

Sjá meira


×