Innlent

Starfskjör þingmanna rýrð um 150 þúsund

Sveinn Arnarsson skrifar
Forsætisnefnd þingsins ákvað á fundi sínum í gær að lækka starfskostnað þingmanna sem nemur um 150 þúsund krónum á mánuði. Með því kemur forsætisnefnd til móts við óánægjuraddir með hækkun launa þingmanna. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og nefndarmaður í forsætisnefnd, telur að frekari skref þurfi að taka.

Ferðakostnaður þingmanna í kjördæmum var lækkaður úr tæpum 84 þúsund krónum í 30 þúsund krónur og starfskostnaður þingmanna var lækkaður um heilar fimmtíu þúsund krónur, er nú 40 þúsund krónur en var rúmar 90 þúsund krónur mánaðarlega. Forsætisnefndin segir þetta jafnast á við 150 þúsund krónur að teknu tilliti til skatta.

Hvorki er hróflað við húsnæðis- né dvalarkostnaði þingmanna.

Þessi ákvörðun forsætisnefndar hefur í för með sér að ákvörðun kjararáðs stendur óbreytt.

„Þetta mun ekki hafa áhrif á laun ráðherra. Nú vinn ég að því að höfða mál til þess að fá úrskurði kjararáðs hnekkt. Ég tel kjararáð ekki hafa farið að lögum við úrskurð sinn. Því ber að halda sig innan almennra launahækkana sem var ekki gert að mínu mati,“ segir Jón Þór Ólafsson. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×