Enski boltinn

Ivanovic fær að fara frítt til Zenit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Branislav Ivanovic, varnarmaður Chelsea, á í viðræðum við Zenit frá Pétursborg.

Daily Mail greinir frá því að Ivanovic fái að fara frítt frá Chelsea en hann á sex mánuði eftir af samningi sínum við félagið.

Ensku úrvalsdeildarliðin Everton, Leicester City og West Ham United hafa einnig sýnt Ivanovic áhuga en líklegast þykir að hann endi hjá Zenit.

Ivanovic var í byrjunarliðinu í fyrstu sex deildarleikjum Chelsea á tímabilinu. En eftir að Antonio Conte, stjóri Chelsea, breytti um leikkerfi eftir 3-0 tap fyrir Arsenal hefur Ivanovic ekki komist í byrjunarliðið. Serbinn hefur þó sjö sinnum komið inn á sem varamaður í úrvalsdeildinni.

Ivanovic, sem er 32 ára, kom til Chelsea frá Lokomotiv Moskvu 2008. Síðan þá hefur Ivanovic leikið 375 leiki fyrir Chelsea og skorað 33 mörk.

Ivanovic hefur tvívegis orðið enskur meistari með Chelsea, þrisvar sinnum bikarmeistari auk þess sem hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×