Innlent

Undirrituðu samninga um móttöku sex sýrlenskra flóttafjölskyldna

Anton Egilsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, undirritaði í dag samninga við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Reykjavík og Eirík Björgvin Björgvinsson, bæjarstjóra á Akureyri, um mótttöku sex sýrlenskra flóttafjölskyldna sem væntanlegar eru til landsins eftir helgi. Fimm fjölskyldur setjast að í Reykjavík og ein á Akureyri.

Í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins kemur fram að samningarnir séu sambærilegir þeim sem nýlega voru undirritaðir við forsvarsmenn sveitarfélaganna Hveragerðis og Árborgar sem einnig taka á móti fjölskyldum úr þeim 47 manna hópi sýrslenskra flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið til landsins. Samningar ráðuneytisins og sveitarfélaganna um móttökuverkefnið lýtur að aðstoð og stuðningi við fólkið á næstu tveimur árum.

„Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.” Segir jafnframt í tilkynningunni.

Kemur Rauði krossinn að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi og útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×