Lífið

Hlaut skólastyrk fyrir hæstu meðaleinkunnina

Guðný Hrönn skrifar
Bryndís Gyða Michelsen, fyrrverandi fyrirsæta og stofnandi síðunnar Hún.is, stundar nú lögfræðinám við Háskólann í Reykjavík af kappi. Bryndís er að massa námið því hún fékk hæstu meðaleinkunnina á seinustu önn, 8,37 nánar tiltekið, og fékk skólastyrk í tilefni þess.

Upphaflega ætlaði Bryndís í læknisfræði en eftir að hafa íhugað málið komst hún að því að lögfræði hentaði henni betur. „Lögfræðin fór að heilla mig eftir að ég átti strákinn minn og var að spekúlera hvað ég vildi læra. Ég er ansi sátt með valið og held að ég hafi valið hárrétt fag, lögfræðin er nefnilega einstaklega skemmtileg,“ segir Bryndís sem fékk ansi góðar fréttir um daginn þess efnis að hún hefði hlotið hæstu meðaleinkunnina sem gefin var í lögfræði á önninni.

„Það var ansi góð tilfinning að fá þessar fréttir. Ég vissi auðvitað í desember, eftir lokaprófin, hverjar einkunnir mínar voru og ég var ánægð með frammistöðu mína. En það er auðvitað mikill heiður að fá þennan skólastyrk sem háskólinn veitir þeim sem fá hæstu einkunn. Styrkurinn felst í greiðslu skólagjalda fyrir önnina. Mér finnst þetta frábært framtak hjá skólanum því þetta virkar án efa sem hvati fyrir nemendur.“

Bryndís Gyða kveðst alla tíð hafa átt auðvelt með bóklegt nám. „Já, bóklegt nám hefur alltaf legið vel fyrir mér en lykillinn að árangri er að mínu mati samviskusemi og að mæta í alla tíma og hlusta. Ég glósa mikið, bæði á fyrirlestrum og upp úr þeim bókum sem ég les í tengslum við námsefnið og það skiptir miklu máli til þess að ná góðum tökum á efninu,“ útskýrir Bryndís.

„Ég er nú á þriðju önn og ég býst við að vera komin með BA-gráðuna eftir tæp tvö ár. Þá mun ég fara í mastersnám og þegar því er lokið langar mig að fara til útlanda og bæta við mig þekkingu þar og læra meira,“ segir Bryndís, spurð um hvað sé fram undan hjá henni. „Ég mun sérhæfa mig en hef ekki enn ákveðið í hverju það verður, það held ég að komi í ljós eftir því sem lengra líður á námið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×