Innlent

Fær átta og hálfa milljón í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar

Anton Egilsson skrifar
Hæstiréttur dæmdi konunni bætur vegna fjártjóns og miska
Hæstiréttur dæmdi konunni bætur vegna fjártjóns og miska Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur dæmt konu sem var sagt upp starf sínu hjá Umboðsmanni skuldara átta og hálfa milljón króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Konunni var sagt upp störfum fyrirvaralaust í maí árið 2015 sökum þess að hún hafði haft afskipti af þremur málum fyrrverandi eiginmanns síns sem höfðu verið til meðferðar hjá embættinu.

Var tekið fram í dómnum að þótt afskipti konunnar af  málum fyrrverandi eiginmanns hennar hefðu verið brot gegn ríkum trúnaðarskyldum hefði konan í starfi sínu ekki tekið ákvarðanir í málunum og ekki lægi fyrir að hún hefði notfært sér upplýsingarnar í eigin þágu eða hefði miðlað þeim til annarra.

Ekki talið varða fyrirvaralausa brottvísun úr starfi

Ráðningarsamningi konunnar sem hafði starfað hjá Umboðsmanni skuldara í um fimm ára sekið þegar málið kom upp var sagt upp fyrirvaralaust. Taldi Hæstiréttur að þær misgerðir sem konunni höfðu verið gefnar að sök hefðu ekki getað haft í för með sér fyrirvaralausan brottrekstur. Af þeim sökum hefði riftun ráðningarsamnningsins verið ólögmæt.

Sagði Hæstiréttur jafnframt að misgerðir konunnar hefðu með réttu lagi ekki varðað öðru en að hún sætti áminningu og héldi starfinu ef annað og meira kæmi ekki til. Var íslenska ríkinu sökum hinnar ólögmætu uppsagnar gert að greiða konunni átta og hálfa milljón króna í bætur vegna fjártjóns og miska.

Lesa má dóm Hæstaréttar í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×