Enski boltinn

Wenger viðurkennir að Xhaka fékk ekki hæfileika til að tækla í vöggugjöf

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkennir að Granit Xhaka, miðjumaður liðsins, er ekki náttúrlega góður tæklari en svissneski landsliðsmaðurinn fékk sitt annað rauða spjald um helgina.

Xhaka verður í leikbanni í næstu fjórum leikjum Arsenal eftir að Jon Moss sýndi honum beint rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu á Steven Defour, leikmann Burnley og samherja Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Wenger segir að Xhaka ætlaði sér ekkert illt með tæklingunni en játar því að þessi 24 ára gamli miðjumaður þarf að æfa tæklingarnar aðeins betur.

„Ég er búinn að horfa á þetta aftur og þetta var ekki hættuleg tækling heldur klaufaleg. Maður þarf samt að sætta sig við það að það er hægt að refsa mönnum fyrir þetta og við lærum af þessu,“ sagði Wenger á blaðamannafundi sínum í dag.

„Xhaka ætla ekki að meiða neinn en því miður verðum við án hans í næstu fjórum leikjum á þessum mikilvæga kafla tímabilsins.“

„Hann er ekki náttúrlega góður tæklari en hann er gáfaður leikmaður sem staðsetur sig vel. Hann er ekki alveg búinn að ná tökum á tækninni sem er að tækla. Ég myndi hvetja hann til að tækla ekki heldur halda sér á fótunum. Að tækla er eitthvað sem þú lærir ungur að aldri og þú getur alltaf bætt þig, en þegar þú mætir einhverjum maður á mann er betra að þú standir í fæturnar,“ segir Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×