Enski boltinn

„Eins og spila manni færri þegar Sturridge skorar ekki“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liverpool féll úr leik í enska deildabikarnum í gær eftir 1-0 tap gegn Southampton, 2-0 samanlagt, í undanúrslitum í gær.

Liverpool þurfti að skora á heimavelli í gær til að fá leikinn í framlengingu en tókst ekki. Shane Long tryggði Southampton sigurinn með marki eftir skyndisókn undir lok leiksins.

Daniel Sturridge spilaði í framlínu Liverpool en hann fór illa með nokkur færi sem hann fékk í leiknum. Sturridge hefur glímt við tíð og þrálát meiðsli síðan hann kom til Liverpool frá Chelsea árið 2013 og Jamie Carragher, fyrrum varnarmaður Liverpool og sérfræðingur, segir að hann sé breyttur leikmaður.+

Sjá einnig: Southampton á Wembley í fyrsta sinn í 38 ár | Sjáðu markið

„Sturridge er gjörólíkur leikmaður í dag. Það væri hægt að líkja honum við Sadio Mane þegar hann kom fyrst því að tilgangurinn með því að kaupa hann á sínum tíma var að nýta hraðann hans til að komast í gegnum varnir andstæðings,“ sagði Carragher eftir leikinn í gær.

„Í eitt sinn í kvöld þá lenti hann á auglýsingaskiltunum fyrir framan Kop-stúkuna en mér fannst að hann hefði átt að ná boltanum. Ég veit ekki hvort að hann sé búinn að missa hraðann sinn eða vilji einfaldlega ekki taka áhættu vegna meiðsla,“ sagði hann enn fremur.

Carragher segir að Sturridge er ekki lengur leikmaður sem geti stungið sér á bak við varnarmenn og hann sé því ekki góður staðgengill fyrir Mane.

Sjá einnig: Klopp: Heppnin var ekki með okkur

„Eina ástæðan fyrir því að vera með Sturridge í liðinu er að hann getur klárað færi. En það verður að færa honum færin á silfurfati. Liverpool gerði það í þessum leik og hann nýtti ekki færin.“

„Þannig a þegar að leikmenn eins og hann nýta ekki færin sín þá er þetta í raun eins og að spila manni færri. Framherjar eins og Sturridge hafa í raun ekkert annað fram að færa.“


Tengdar fréttir

Klopp: Heppnin var ekki með okkur

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að heppnin hefði ekki verið með sínum mönnum í liði gegn Southampton í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×