Innlent

Fátækir fá enga pelsa sem fara í dýraathvörf með blessun PETA

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fjölskylduhjálp Íslands er hætt við að úthluta fátækum pelsum sem dýraverndunarsamtökin PETA fluttu til landsins í því skyni.

„Skjólstæðingar okkar skipta þúsundum og því getum við ekki gert upp á milli þeirra fjölmörgu sem búa við fátækt á Íslandi. Heimilislausir hafa nú þegar fengið pelsa til að halda á sér hita í óupphituðum húsakynnum og hriplekum kofum,“ segir í tilkynningu Fjölskylduhjálparinnar, sem kveðst munu ráðstafa pelsunum í dýraathvörf hérlendis.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, upplýsti á þriðjudag að tekist hefði að þvo úr tveimur pelsum umdeildar merkingar sem PETA málaði til að hindra endursölu og þar með að pelsarnir yrðu gerðir að féþúfu. Sonul Badiani Hamment, sem fylgdi PETA-pelsunum hingað til lands, tók slíkt hins vegar ekki í mál og sagðist mundu fara með pelsana aftur utan ef það stæði til.

Eins og kunnugt er var úthlutun pelsanna gagnrýnd harðlega og sögð meðal annars siðferðislega ámælisverð með því að merkja fátækt fólk sem slíkt og nota það í kynningarstarfsemi.

Olivia Jordan, fjölmiðlafulltrúi hjá PETA, segir samtökin áður hafa gefið pelsa með þessum hætti allt frá San Francisco til Sýrlands og ávallt fengið þakkir fyrir. Þau viti af gagnrýni á úthlutun pelsanna hérlendis og séu sátt við ráðstöfun þeirra. „Við erum ánægð með að allir ónotaðir pelsar verði gefnir í dýraathvörf í bæli til að hlúa að særðum og munaðarlausum dýrum,“ segir Olivia sem kveður þessa leið einmitt áður hafa verið farna á Englandi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×