Innlent

Bygging 360 íbúða hafin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Uppbygging 360 íbúða hverfis á svokölluðum RÚV-reit við Efstaleiti í Reykjavík er hafin. Frá þessu er greint á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Gatnagerð og lagnavinna á svæðinu hófst í nóvember.

Tvær nýjar götur verða byggðar upp á svæðinu og hljóta þær heitin Lágaleiti og Jaðarleiti.

Ásamt íbúðunum 360 er gert ráð fyrir 800 fermetrum verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Þá verða lagðir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og byggð yfirbyggð reiðhjólastæði.

„Gert er ráð fyrir fjölbreytileika í íbúðastærðum. Engin ein íbúðargerð verði umfram 35 prósent íbúða á hverri lóð og sameiginlegur fjöldi eins og tveggja herbergja íbúða fari aldrei yfir 60 prósent. Sorphirða verður með nútímalegum hætti og gert er ráð fyrir djúpgámum og endurvinnslukerfi,“ segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×