Þegar öll undanúrslit voru búin í gær var ljóst að Norma Dögg hafði gert sér lítið fyrir og náð 11 sæti í stökki. Hún er því varamaður inn í úrslitin sem fara fram á laugardaginn. Aðeins átta bestu keppendurnir fá þátttökurétt í úrslitum á hverju áhaldi fyrir sig. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk fimleikakona er varamaður fyrir úrslit á einstöku áhaldi.
Það voru yfir 60 keppendur á Evrópumótinu sem kepptu í stökki og ljóst að árangur Normu og annarra íslenskra keppenda í Moskvu gefur góð fyrirheit fyrir Smáþjóðaleikana sem haldnir verða í Lúxemborg í byrjun júní.

Þess má einnig geta að Dominiqua endaði í 28. sæti af 74 keppendum á jafnvægisslá sem er fínn árangur. Í karlaflokknum, sem kláraðist á miðvikudaginn, hafnaði Ólafur Garðar Gunnarsson í 46. sæti í fjölþraut en Sigurður Andrés Sigurðarson í 50. sæti.