Sport

Bað Íslendinga afsökunar

Lothar Matthaus, þjálfari ungverska landsliðsins bað Íslendinga afsökunar eftir leikinn enda var það mjög ósanngjarnt að hans menn færu burt með öll þrjú stigin úr Laugardalnum í gær.  „Ég er afar ósáttur við leik minna manna í dag og þó við höfum fengið þrjú stig, var þetta ekki knattspyrna sem við vorum að spila þarna úti. Ég er afar vonsvikinn og ég verð eiginlega að biðja Íslendinga afsökunar, því þið voruð með stærra hjarta en við, betra hugarfar og betri knattspyrnu. Ég er því afar hissa á því að við skulum hafa unnið þennan leik," sagði Lothar Matthaus, þjálfari Ungverja eftir leikinn í gær. Við spurðum hann hvað honum hefði fundist við um vítaspyrnudómana tvo. „Því miður var ég staðsettur svo langt frá atvikunum að ég er ekki dómbær á það. Mér skilst að um hendi og brot hafi verið að ræða, en ég verð að sjá það í sjónvarpinu áður en ég get dæmt um það að fullu. Það var heppni að við skyldum fá þessi víti og ná að stela sigrinum hérna, því við vorum að leika skelfilega og ég þarf greinilega að lesa hraustlega yfir hausamótunum á mínum mönnum. Við þurfum að fara yfir af hverju menn virkuðu svona latir, þreyttir og áhugalausir inni á vellinum. Ég hef skamman tíma til að vinna með liðið í þessum landsleikjum og því verðum við að bregðast skjótt við og laga þessa hluti. Ungverjar hafa stóra drauma og miklar væntingar til liðs síns og við verðum svo sannarlega að bregðast skjótt við ef við eigum að standa undir þessum væntingum," sagði þjálfarinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×