Endurreisn á nýjum grunni Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson skrifar 13. desember 2008 06:00 Á andartaki færðumst við Íslendingar úr því að vera í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði áhrærir yfir í að leita alþjóðlegrar ásjár til þess að koma landinu úr efnahagslegri herkví og gera gjaldmiðilinn gjaldgengan. Þessi umskipti kalla á uppgjör, krafan um skýringar er ekki bara sjálfsögð og eðlileg, hún er nauðsynleg forsenda þess að við getum endurreist efnahagslífið á traustum grunni og komið sjálfu þjóðlífinu í eðlilegan farveg á ný. Á undanförnum árum mistókst okkur að tengja saman ríkisfjármálin og stjórn peningamála. Útgjöld hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga - hafa aukist gríðarlega að raungildi síðastliðinn áratug. Það er óþarfi að rekja þenslu undanfarinna ára í smáatriðum; tilraunir Seðlabankans til að slá á verðbólgu með stýrivaxtahækkunum; hvernig erlend lán og verðtrygging drógu úr áhrifamætti vaxtahækkana bankans, vaxtamunurinn við útlönd sogaði til sín erlent fjármagn og vextir urðu ein helsta útflutningsafurð þjóðarinnar. Afleiðingin varð meðal annars sú að gengi íslensku krónunnar varð sterkara en verðmætasköpun þjóðarinnar gat staðið undir. Fyrir vikið varð kaupmáttur of mikill, einkaneyslan jókst og víða í atvinnulífinu fóru menn fram úr sér líka. Niðurstaðan varð sú að verðbólga rauk upp og hagkerfið varð rammskakkt: framleiðslan og útflutningur greiddu fyrir óhóflega neyslu og ódýra mynt, sem nýttist þeim sem fjárfestu erlendis. Á þessum vanda hafði ekki verið unnið þegar bankahrunið varð. Fjármálakreppan nú er sú versta síðan 1930 og hana stóðust íslensku bankarnir ekki. Niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sú að við höfum verið illa undirbúin og heimili og atvinnulíf of skuldsett. EinkavæðinginMargir hafa orðið til þess að benda á einkavæðingu ríkisbankanna sem upphaf ógæfunnar. Undir það viljum við ekki taka. Einkavæðing ríkisbankanna var rétt ákvörðun, en flest bendir til þess að reglur um eignarhald hefðu þurft að vera betur úr garði gerðar. Þröngt eignarhald fer illa saman við að helstu eigendur bankanna séu jafn fyrirferðarmiklir í viðskiptum og verið hefur hér á landi. Þetta á ekki síst við vegna þess hve fákeppni er algeng í atvinnulífi okkar og krosseignatengsl útbreidd. Án nokkurs vafa hefði verið skynsamlegt að setja eignarhaldi að bönkum þrengri skorður. Víða má finna dæmi í löggjöf annarra ríkja um að enginn einn aðili eða eigendahópur megi fara með stærri hlut en 25-30% og að athafnafrelsi þeirra sem fara með stóran eignarhlut í banka sé mjög takmarkað. Alþjóðavæðing fjármálalífsins felur í senn í sér mikil tækifæri og hættur. Erlendar lántökur bankanna og of ör stækkun efnahags þeirra gerði það að verkum að bankarnir höfðu í raun engan lánveitanda til þrautavara og þar með voru íslensku bankarnir í mun verri stöðu en erlendir bankar þrátt fyrir að rekstur þeirra virtist sterkur. Fjármálaeftirlitið hafði ekki næga fjármuni og mannafla til að sinna hlutverki sínu. Þetta var látið viðgangast of lengi og stjórnmálamenn bera þar sína ábyrgð. Þrátt fyrir mikla aukningu á síðustu tveimur árum er það enn svo að Fjármálaeftirlitið er einungis með um 60% þess mannafla sem Fiskistofa hefur. Höfum þó hugfast að getu okkar til að byggja upp margar öflugar stofnanir eru takmörk sett og því fögnum við tillögu forsætisráðherra um að skoða hvort sameina megi Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Mikilvæg næstu skrefÞær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á undanförnum mánuðum hafa markast af því að reyna að lágmarka þann skaða sem orðið hefur. Þjóðnýting bankanna tryggði að greiðslukerfin hrundu ekki og þar með gat almenningur og viðskiptalífið áfram nýtt sér bankaþjónustu. Aðgerðir til að leysa bráðavanda heimilanna og viðskiptalífsins hafa nú þegar litið dagsins ljós og fram undan eru verkefni sem snúa að því hvernig við leysum úr málum á næstu misserum og leggjum þar með grunn að efnahagslegri endurreisn. Við viljum hér tæpa á nokkrum atriðum sem við teljum að geti verið gagnleg í þeirri vinnu. • Samdráttur í tekjum og auknar vaxtagreiðslur gerir það að verkum að nauðsynlegt er að skera niður í ríkisbúskapnum á næstu árum. Breyttar aðstæður kalla á að við endurhugsum og hagræðum í öllum ríkisrekstrinum. Við leggjum til að sett verði upp nokkurra ára áætlun um slíka endurskipulagningu með aðstoð færustu sérfræðinga á Íslandi og eftir atvikum aðkomu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. • Halda ber skattahækkunum í lágmarki því með þeim er dregið úr framkvæmdavilja í samfélaginu sem aftur vinnur gegn því markmiði að komast sem fyrst út úr efnahagskreppunni. • Auka þarf gagnsæi í störfum eftirlitsstofnana fjármálakerfisins. Þetta er nauðsynlegur liður í að auka skilning á því starfi sem þar fer fram og um leið traust á kerfinu í heild. • Komið verði á föstum samráðsvettvangi á milli ríkisstjórnarinnar, samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Samráð þessara aðila er lykillinn að árangri á næstu mánuðum og reglulegir fundir á milli þeirra ráðherra sem með efnahagsmál fara og forystumanna aðila vinnumarkaðarins því nauðsynlegir. • Skýrar, einfaldar og gagnsæjar reglur verða að gilda um samskipti ríkisbankanna við viðskiptavini sína vegna þess almenna vanda sem við er að etja. Þetta á bæði við um fyrirtæki og einstaklinga. • Mikilvægt er að öflug efnahagsskrifstofa sé til staðar í forsætisráðuneytinu sem hafi ráðgefandi hlutverk fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn. Jafnframt leggjum við til að Alþingi geri fastan samning við háskólastofnun um gerð þjóðhagsspár og annarra álitsgerða um þau efnahagslegu málefni sem þingið telur nauðsynlegt. • Áhersla verði lögð á að flýta gjaldeyrisskapandi framkvæmdum og ráðist verði í þá orkuöflun sem nauðsynleg er til að slíkt megi verða. Jafnframt verður að afnema eins fljótt og auðið er höft á gjaldeyrisviðskipti, en á meðan þau eru þarf að gæta þess að krónan styrkist ekki umfram þarfir framleiðslunnar. • Leita þarf allra leiða til að koma í veg fyrir að þeir sem lenda í fjárhagserfiðleikum á næstu misserum missi heimili sín. • Lækka verður vexti við fyrsta tækifæri og gera aðgang að fjármagni greiðari fyrir fjárþurfa atvinnulíf. Vandi smárrar myntarVegna þeirra efnahagserfiðleika sem fram undan eru er mjög kallað eftir því að stjórnmálaflokkar móti sér sýn og stefnu sem stýrt geti för næstu misseri og ár. Í ljósi aðstæðna er eðlilegt að sú umræða hverfist einkum um peningamálastefnuna, valkosti í gjaldmiðilsmálum og ríkisfjármálin. Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum efnahagsstefnu hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu. Íslenska krónan er smá og viðkæm fyrir ytri áhrifavöldum. Á undanförnum árum hafa miklar sveiflur í gjaldmiðlinum valdið fyrirtækjum og heimilum verulegum vanda. Veik staða krónunar um þessar mundir er okkur reyndar mikilvæg og verður það áfram á næstunni til þess að reisa hagkerfinð við, því lágt gengi styrkir útflutninginn og veitir innlendri framleiðslu vernd. Þar með verndum við störfin og aukum framleiðsluna. Ýmis rök hníga því að því að krónan geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma. En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst. Ekki verður horft fram hjá þeim veikleikum sem felast í smæð myntkerfisins. Meira að segja Bretar velta því nú fyrir sér hvort myntsvæði þeirra sé of lítið til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það kemur því ekki á óvart að forystumenn íslensks atvinnulífs leggi um þessar mundir vaxandi áherslu á að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum á nýjum forsendum. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa á sama tíma sannfæringu fyrir því að án nýs gjaldmiðils muni ekki takast að verja stöðugleika og þar með kaupmátt almennings. Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins. Rangt væri að gera lítið úr þeirri fórn. Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar. Evrópusambandsaðild er hins vegar miklu stærra og flóknara mál en svo að hægt sé að láta það ráðast af gjaldmiðlinum einum. Með í kaupunum fylgja ýmsir aðrir þættir, sumir jákvæðir en aðrir neikvæðir og þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið vega svo þungt, að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan ESB en innan. Þessi afstaða hefur átt samhljóm meðal þjóðarinnar enda ESB aðild aldrei verið kosningamál hér á landi. Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika á Íslandi er ljóst að ekkert hefur breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um er að semja í aðildarviðræðum við ESB. Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum. ÞjóðaratkvæðagreiðslaVerði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ítrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli. Ljóst er að hér er um að ræða mál sem gengur þvert á flokkslínur. Aðrir flokkar hafa hver með sínum hætti opnað á að virkja beint lýðræði til lausnar á aðildarspurningunni og það gengur gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar. Óumdeilanlegt er að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi og innan Evrópusamstarfsins mun hvíla á sterkari grunni að loknu slíku ferli. Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna. Til varnar frelsinuMargir eiga nú við vanda að etja, standa frammi fyrir atvinnuleysi og erfiðleikum þrátt fyrir að hafa sýnt varkárni og almenna fyrirhyggju í fjármálum sínum. Þetta hefur leitt til þess að sú skoðun er nú næsta útbreidd að frelsið hafi einhvern veginn hlaupið með okkur í gönur, að hrun bankanna og afleiðingar þess sé frelsinu að kenna. Sótt er að þeirri lífsskoðun að athafnafrelsi og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundvallar. Frelsi einstaklingsins til orða og athafna er markmið í sjálfu sér. Sagan geymir fjölda dæma um hvernig allt um lykjandi ríkisvald drepur mannlífið í dróma, hvernig grámóska og einsleitni bera fjölbreytni og athafnagleði ofurliði þegar hið opinbera er upphaf og endir alls. En hitt er einnig ljóst að ríkisrekstur getur aldrei keppt við hið frjálsa hagkerfi þegar kemur að verðmætasköpun, um það ber sagan rækilegt vitni. Leiðin út úr þeim efnahagsvanda sem nú er við að kljást er því ekki vörðuð ríkisrekstri og auknu valdi stjórnmálamanna. En hún er heldur ekki mörkuð óheftri gróðahyggju eða skeytingarleysi um velferð samfélagsins og þeirra sem minna mega sín. Við viljum samfélag sem er margbreytilegt og umburðarlynt. Samfélag þar sem ólíkir einstaklingar eiga möguleika á að blómstra, þar sem flestir eiga tækifæri til að leita hamingju á sínum eigin forsendum. Eftir því sem meira er þrengt að frelsinu og völd stjórnmála- og embættismanna aukast, því minni líkur eru á að slíkt samfélag verði til. Við skulum því ekki hverfa frá þeim grunngildum sem hafa sannarlega skilað þjóðinni og öðrum þeim þjóðum sem lagt hafa þau til grundvallar gríðarlegum framförum, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Farsælast er að byggja áfram á þessum grunni en horfast í augu við að margt þarf að laga í umgjörðinni og regluverkinu til þess að hindra að þeir atburðir endurtaki sig sem nú hafa orðið. Traustið þarf að endurheimtaAtburðir síðustu mánaða hafa dregið mjög úr trausti fólksins í landinu á stjórnmálamönnum, stjórnskipulaginu og stofnunum ríkisins. Samkvæmt stjórnskipun landsins er Alþingi valdamesta stofnun landsins. Ríkisstjórnin situr í umboði þess og þiggur vald sitt þaðan. Samt sem áður hefur þróunin verið sú að framkvæmdavaldið hefur verið ráðandi í samskiptum sínum við Alþingi. Sú umræða hefur farið vaxandi að Alþingi sinni ekki nægjanlega vel eftirliti með framkvæmdavaldinu. Allur vafi um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu grefur undan tiltrú almennings á stjórnskipulaginu. Þegar svo við bætist sú gremja og heift sem fylgir hruni í efnahagslífinu er rétt að ígrunda hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnskipuninni í þeim tilgangi að skerpa á ábyrgð einstakra þátta ríkisvaldsins og stofnana þess. Slíkar breytingar kunna að vera tímabærar og nauðsynlegur liður í að endurheimta traust almennings á stjórnskipulaginu. Einn þáttur slíkrar endurskoðunar ætti að okkar mati að lúta að kosningafyrirkomulaginu. Við eigum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvaða aðferðir henta til þess að velja þá einstaklinga og flokka sem við treystum best til að fara með þau sameiginlegu mál. Markmiðið á að vera að efla tengsl á milli kjósenda og kjörinna fulltrúa, skerpa á ábyrgð þeirra sem fara með vald, jafnframt því að styrkja eftirlitshlutverk einstakra þátta ríkisvaldsins með hver öðrum. Þrátt fyrir að samfélag okkar verði upptekið af því að bregðast við þeim bráðavanda sem nú steðjar að er nauðsynlegt að við horfum til þessara mikilvægu grunnþátta í stjórnskipulaginu í þeirri endurreisn íslensks efnahagslífs sem fram undan er. Höfundar eru alþingismenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bjarni Benediktsson Illugi Gunnarsson Mest lesið Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmalaust mál Sigursteinn Másson skrifar Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Tækifæri gervigreindar í menntun Páll Ásgeir Torfason skrifar Skoðun Sjálfstæð hugsun á tímum gervigreindar Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson skrifar Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson skrifar Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir skrifar Skoðun Hvað er friður? Sigurvin Lárus Jónsson skrifar Skoðun Af hverju er ekki búið að tryggja raforkuöryggi almennings? Hjálmar Helgi Rögnvaldsson skrifar Skoðun Kennarar: hvernig höldum við þeim við efnið? Davíð Már Sigurðsson skrifar Sjá meira
Á andartaki færðumst við Íslendingar úr því að vera í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði áhrærir yfir í að leita alþjóðlegrar ásjár til þess að koma landinu úr efnahagslegri herkví og gera gjaldmiðilinn gjaldgengan. Þessi umskipti kalla á uppgjör, krafan um skýringar er ekki bara sjálfsögð og eðlileg, hún er nauðsynleg forsenda þess að við getum endurreist efnahagslífið á traustum grunni og komið sjálfu þjóðlífinu í eðlilegan farveg á ný. Á undanförnum árum mistókst okkur að tengja saman ríkisfjármálin og stjórn peningamála. Útgjöld hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga - hafa aukist gríðarlega að raungildi síðastliðinn áratug. Það er óþarfi að rekja þenslu undanfarinna ára í smáatriðum; tilraunir Seðlabankans til að slá á verðbólgu með stýrivaxtahækkunum; hvernig erlend lán og verðtrygging drógu úr áhrifamætti vaxtahækkana bankans, vaxtamunurinn við útlönd sogaði til sín erlent fjármagn og vextir urðu ein helsta útflutningsafurð þjóðarinnar. Afleiðingin varð meðal annars sú að gengi íslensku krónunnar varð sterkara en verðmætasköpun þjóðarinnar gat staðið undir. Fyrir vikið varð kaupmáttur of mikill, einkaneyslan jókst og víða í atvinnulífinu fóru menn fram úr sér líka. Niðurstaðan varð sú að verðbólga rauk upp og hagkerfið varð rammskakkt: framleiðslan og útflutningur greiddu fyrir óhóflega neyslu og ódýra mynt, sem nýttist þeim sem fjárfestu erlendis. Á þessum vanda hafði ekki verið unnið þegar bankahrunið varð. Fjármálakreppan nú er sú versta síðan 1930 og hana stóðust íslensku bankarnir ekki. Niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sú að við höfum verið illa undirbúin og heimili og atvinnulíf of skuldsett. EinkavæðinginMargir hafa orðið til þess að benda á einkavæðingu ríkisbankanna sem upphaf ógæfunnar. Undir það viljum við ekki taka. Einkavæðing ríkisbankanna var rétt ákvörðun, en flest bendir til þess að reglur um eignarhald hefðu þurft að vera betur úr garði gerðar. Þröngt eignarhald fer illa saman við að helstu eigendur bankanna séu jafn fyrirferðarmiklir í viðskiptum og verið hefur hér á landi. Þetta á ekki síst við vegna þess hve fákeppni er algeng í atvinnulífi okkar og krosseignatengsl útbreidd. Án nokkurs vafa hefði verið skynsamlegt að setja eignarhaldi að bönkum þrengri skorður. Víða má finna dæmi í löggjöf annarra ríkja um að enginn einn aðili eða eigendahópur megi fara með stærri hlut en 25-30% og að athafnafrelsi þeirra sem fara með stóran eignarhlut í banka sé mjög takmarkað. Alþjóðavæðing fjármálalífsins felur í senn í sér mikil tækifæri og hættur. Erlendar lántökur bankanna og of ör stækkun efnahags þeirra gerði það að verkum að bankarnir höfðu í raun engan lánveitanda til þrautavara og þar með voru íslensku bankarnir í mun verri stöðu en erlendir bankar þrátt fyrir að rekstur þeirra virtist sterkur. Fjármálaeftirlitið hafði ekki næga fjármuni og mannafla til að sinna hlutverki sínu. Þetta var látið viðgangast of lengi og stjórnmálamenn bera þar sína ábyrgð. Þrátt fyrir mikla aukningu á síðustu tveimur árum er það enn svo að Fjármálaeftirlitið er einungis með um 60% þess mannafla sem Fiskistofa hefur. Höfum þó hugfast að getu okkar til að byggja upp margar öflugar stofnanir eru takmörk sett og því fögnum við tillögu forsætisráðherra um að skoða hvort sameina megi Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Mikilvæg næstu skrefÞær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á undanförnum mánuðum hafa markast af því að reyna að lágmarka þann skaða sem orðið hefur. Þjóðnýting bankanna tryggði að greiðslukerfin hrundu ekki og þar með gat almenningur og viðskiptalífið áfram nýtt sér bankaþjónustu. Aðgerðir til að leysa bráðavanda heimilanna og viðskiptalífsins hafa nú þegar litið dagsins ljós og fram undan eru verkefni sem snúa að því hvernig við leysum úr málum á næstu misserum og leggjum þar með grunn að efnahagslegri endurreisn. Við viljum hér tæpa á nokkrum atriðum sem við teljum að geti verið gagnleg í þeirri vinnu. • Samdráttur í tekjum og auknar vaxtagreiðslur gerir það að verkum að nauðsynlegt er að skera niður í ríkisbúskapnum á næstu árum. Breyttar aðstæður kalla á að við endurhugsum og hagræðum í öllum ríkisrekstrinum. Við leggjum til að sett verði upp nokkurra ára áætlun um slíka endurskipulagningu með aðstoð færustu sérfræðinga á Íslandi og eftir atvikum aðkomu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. • Halda ber skattahækkunum í lágmarki því með þeim er dregið úr framkvæmdavilja í samfélaginu sem aftur vinnur gegn því markmiði að komast sem fyrst út úr efnahagskreppunni. • Auka þarf gagnsæi í störfum eftirlitsstofnana fjármálakerfisins. Þetta er nauðsynlegur liður í að auka skilning á því starfi sem þar fer fram og um leið traust á kerfinu í heild. • Komið verði á föstum samráðsvettvangi á milli ríkisstjórnarinnar, samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Samráð þessara aðila er lykillinn að árangri á næstu mánuðum og reglulegir fundir á milli þeirra ráðherra sem með efnahagsmál fara og forystumanna aðila vinnumarkaðarins því nauðsynlegir. • Skýrar, einfaldar og gagnsæjar reglur verða að gilda um samskipti ríkisbankanna við viðskiptavini sína vegna þess almenna vanda sem við er að etja. Þetta á bæði við um fyrirtæki og einstaklinga. • Mikilvægt er að öflug efnahagsskrifstofa sé til staðar í forsætisráðuneytinu sem hafi ráðgefandi hlutverk fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn. Jafnframt leggjum við til að Alþingi geri fastan samning við háskólastofnun um gerð þjóðhagsspár og annarra álitsgerða um þau efnahagslegu málefni sem þingið telur nauðsynlegt. • Áhersla verði lögð á að flýta gjaldeyrisskapandi framkvæmdum og ráðist verði í þá orkuöflun sem nauðsynleg er til að slíkt megi verða. Jafnframt verður að afnema eins fljótt og auðið er höft á gjaldeyrisviðskipti, en á meðan þau eru þarf að gæta þess að krónan styrkist ekki umfram þarfir framleiðslunnar. • Leita þarf allra leiða til að koma í veg fyrir að þeir sem lenda í fjárhagserfiðleikum á næstu misserum missi heimili sín. • Lækka verður vexti við fyrsta tækifæri og gera aðgang að fjármagni greiðari fyrir fjárþurfa atvinnulíf. Vandi smárrar myntarVegna þeirra efnahagserfiðleika sem fram undan eru er mjög kallað eftir því að stjórnmálaflokkar móti sér sýn og stefnu sem stýrt geti för næstu misseri og ár. Í ljósi aðstæðna er eðlilegt að sú umræða hverfist einkum um peningamálastefnuna, valkosti í gjaldmiðilsmálum og ríkisfjármálin. Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum efnahagsstefnu hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu. Íslenska krónan er smá og viðkæm fyrir ytri áhrifavöldum. Á undanförnum árum hafa miklar sveiflur í gjaldmiðlinum valdið fyrirtækjum og heimilum verulegum vanda. Veik staða krónunar um þessar mundir er okkur reyndar mikilvæg og verður það áfram á næstunni til þess að reisa hagkerfinð við, því lágt gengi styrkir útflutninginn og veitir innlendri framleiðslu vernd. Þar með verndum við störfin og aukum framleiðsluna. Ýmis rök hníga því að því að krónan geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma. En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst. Ekki verður horft fram hjá þeim veikleikum sem felast í smæð myntkerfisins. Meira að segja Bretar velta því nú fyrir sér hvort myntsvæði þeirra sé of lítið til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það kemur því ekki á óvart að forystumenn íslensks atvinnulífs leggi um þessar mundir vaxandi áherslu á að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum á nýjum forsendum. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa á sama tíma sannfæringu fyrir því að án nýs gjaldmiðils muni ekki takast að verja stöðugleika og þar með kaupmátt almennings. Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins. Rangt væri að gera lítið úr þeirri fórn. Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar. Evrópusambandsaðild er hins vegar miklu stærra og flóknara mál en svo að hægt sé að láta það ráðast af gjaldmiðlinum einum. Með í kaupunum fylgja ýmsir aðrir þættir, sumir jákvæðir en aðrir neikvæðir og þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið vega svo þungt, að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan ESB en innan. Þessi afstaða hefur átt samhljóm meðal þjóðarinnar enda ESB aðild aldrei verið kosningamál hér á landi. Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika á Íslandi er ljóst að ekkert hefur breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um er að semja í aðildarviðræðum við ESB. Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum. ÞjóðaratkvæðagreiðslaVerði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ítrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli. Ljóst er að hér er um að ræða mál sem gengur þvert á flokkslínur. Aðrir flokkar hafa hver með sínum hætti opnað á að virkja beint lýðræði til lausnar á aðildarspurningunni og það gengur gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar. Óumdeilanlegt er að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi og innan Evrópusamstarfsins mun hvíla á sterkari grunni að loknu slíku ferli. Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna. Til varnar frelsinuMargir eiga nú við vanda að etja, standa frammi fyrir atvinnuleysi og erfiðleikum þrátt fyrir að hafa sýnt varkárni og almenna fyrirhyggju í fjármálum sínum. Þetta hefur leitt til þess að sú skoðun er nú næsta útbreidd að frelsið hafi einhvern veginn hlaupið með okkur í gönur, að hrun bankanna og afleiðingar þess sé frelsinu að kenna. Sótt er að þeirri lífsskoðun að athafnafrelsi og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundvallar. Frelsi einstaklingsins til orða og athafna er markmið í sjálfu sér. Sagan geymir fjölda dæma um hvernig allt um lykjandi ríkisvald drepur mannlífið í dróma, hvernig grámóska og einsleitni bera fjölbreytni og athafnagleði ofurliði þegar hið opinbera er upphaf og endir alls. En hitt er einnig ljóst að ríkisrekstur getur aldrei keppt við hið frjálsa hagkerfi þegar kemur að verðmætasköpun, um það ber sagan rækilegt vitni. Leiðin út úr þeim efnahagsvanda sem nú er við að kljást er því ekki vörðuð ríkisrekstri og auknu valdi stjórnmálamanna. En hún er heldur ekki mörkuð óheftri gróðahyggju eða skeytingarleysi um velferð samfélagsins og þeirra sem minna mega sín. Við viljum samfélag sem er margbreytilegt og umburðarlynt. Samfélag þar sem ólíkir einstaklingar eiga möguleika á að blómstra, þar sem flestir eiga tækifæri til að leita hamingju á sínum eigin forsendum. Eftir því sem meira er þrengt að frelsinu og völd stjórnmála- og embættismanna aukast, því minni líkur eru á að slíkt samfélag verði til. Við skulum því ekki hverfa frá þeim grunngildum sem hafa sannarlega skilað þjóðinni og öðrum þeim þjóðum sem lagt hafa þau til grundvallar gríðarlegum framförum, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Farsælast er að byggja áfram á þessum grunni en horfast í augu við að margt þarf að laga í umgjörðinni og regluverkinu til þess að hindra að þeir atburðir endurtaki sig sem nú hafa orðið. Traustið þarf að endurheimtaAtburðir síðustu mánaða hafa dregið mjög úr trausti fólksins í landinu á stjórnmálamönnum, stjórnskipulaginu og stofnunum ríkisins. Samkvæmt stjórnskipun landsins er Alþingi valdamesta stofnun landsins. Ríkisstjórnin situr í umboði þess og þiggur vald sitt þaðan. Samt sem áður hefur þróunin verið sú að framkvæmdavaldið hefur verið ráðandi í samskiptum sínum við Alþingi. Sú umræða hefur farið vaxandi að Alþingi sinni ekki nægjanlega vel eftirliti með framkvæmdavaldinu. Allur vafi um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu grefur undan tiltrú almennings á stjórnskipulaginu. Þegar svo við bætist sú gremja og heift sem fylgir hruni í efnahagslífinu er rétt að ígrunda hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnskipuninni í þeim tilgangi að skerpa á ábyrgð einstakra þátta ríkisvaldsins og stofnana þess. Slíkar breytingar kunna að vera tímabærar og nauðsynlegur liður í að endurheimta traust almennings á stjórnskipulaginu. Einn þáttur slíkrar endurskoðunar ætti að okkar mati að lúta að kosningafyrirkomulaginu. Við eigum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvaða aðferðir henta til þess að velja þá einstaklinga og flokka sem við treystum best til að fara með þau sameiginlegu mál. Markmiðið á að vera að efla tengsl á milli kjósenda og kjörinna fulltrúa, skerpa á ábyrgð þeirra sem fara með vald, jafnframt því að styrkja eftirlitshlutverk einstakra þátta ríkisvaldsins með hver öðrum. Þrátt fyrir að samfélag okkar verði upptekið af því að bregðast við þeim bráðavanda sem nú steðjar að er nauðsynlegt að við horfum til þessara mikilvægu grunnþátta í stjórnskipulaginu í þeirri endurreisn íslensks efnahagslífs sem fram undan er. Höfundar eru alþingismenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar
Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar
Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar
Skoðun Af hverju er ekki búið að tryggja raforkuöryggi almennings? Hjálmar Helgi Rögnvaldsson skrifar
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun