Jól

Jólin í fyrri daga

Guðbjörg Jónsdóttir, húsfreyja á Broddanesi á Ströndum og skrifa
Anna Cynthia
Nokkru fyrir jólin lét móðir mín steypa mikið af kertum. Þann dag fór hún snemma á fætur til þess að tvinna rökin. Þau voru úr ljósagarni. Þann morgun þótt mér mjög gaman að vakna í rúminu fyrir ofan móður mína, sjá hana tvinna rökin og láta þau á kertaspýturnar. Þá fannst mér ég vera stödd í fordyri jólahátíðarinnar. Rökin voru látin á mjóar spýtur, tvö og þrjú á hverja, og stundum fleiri, eftir því hvað spýtan var löng. Þegar farið var að steypa, voru tvær árar látnar á kláfa í eldhúsinu. Þar á milli var svo kertaspýtunum raðað. Svo var strokkurinn látinn á gólfið hjá árunum og skorðaður með grjóti, síðan hellt í hann heitu vatni og tólg. Þá var rökunum dyfið ofan í, en þess á milli látið kólna á spýtunum. Þetta var endurtekið þangað til kertin voru orðin nógu gild.

Móðir mín átti kertaform, en það var ekki notað, nema þegar lítið þurfti að steypa. Oftast var verið nærri allan daginn að steypa kertin. Móðir mín þurfti mikið á kertum að halda, hún var örlát á þau, eins og annað. Öllum unglingum á heimilinu gaf hún kerti, þegar steypt var. Ég man hvað mér þótti vænt um litla kertið mitt, það var svo bjart á því ljósið. En skammdegismyrkrið í gamla bænum var svo svart og svo langt. Fyrir jólin var baðstofan þvegin og allt hreinsað og prýtt. Askar, dallar og öskjur var þvegið upp úr hangikjötssoði.

Á fyrri árum höfðu foreldrar mínir gefið fátæku fólki, sem nálægt þeim var, gjafir fyrir jólin, matvæli og fleira. Kerti voru send til fátækra barna í sveitinni. Gömul kona, sem ólst upp hjá fátækum foreldrum sínum í nánd við foreldra mína, hefur sagt mér að einu sinni fyrir jólin hafi móðir sín ætlað að fara að sjóða reykt selkjöt til jólanna, en þá hafi einn af vinnumönnum foreldra minna komið með hangikjöt og fleira sælgæti, og svo ógleymanlegu kertin. Mikil gleði sagði hún að þá hefði verið í litla kotbænum.

Ekki voru jólin áður gerð dýrleg með kökubakstri eins og nú er siður. Þá var ekki annað búið til með kaffinu en lummur úr sigtuðu grjónamjöli og kleinur og pönnukökur úr sigtuðu rúgmjöli.

Allir höfðu fataskipti á aðfangadagskvöld og þvoðu sér. Þeir sem vildu þvo eitthvað meira en hendurnar og andlitið, fóru út í fjós, þar var hlýjast að vera við þvottinn. En ekki má skilja orð mín svo, að fólkið hafi ekki þvegið sér nema á jólunum. Það þvoði sér oft og greiddi, eftir bestu vitund, og sumar stúlkur höfðu mikið hár, þá þótti það prýði.

Mikið hlakkaði ég til aðfangadagskvöldsins. Þá fékk ég að fara í bestu fötin sem ég átti til, og mér fannst ég vera ákaflega fín, en um það hugsaði ég mikið. Þegar búið var að kveikja og allir höfðu haft fataskipti, fór móðir mín fram í stofuloft til að sækja kertin. Hún gaf öllum á bænum tvö kerti, eins fólkinu á búi systur minnar. Síðari árin var hér tvíbýli. Faðir minn fékk tvö kerti eins og aðrir, þó að hann væri blindur. Ég man hvað hann var sviphýr, þegar hann var að handleika kertin, sem móðir mín gaf honum.

Þegar allir voru búnir að fá kertin, fjölgaði ljósunum í baðstofunni. Nú voru blessuð jólin komin. Sumt fólkið kveikti á kerti og fór að lesa í bók. Aðrir tóku skrifpúltin sín og fóru að lesa. Nú höfðu allir nóga birtu, nema faðir minn. Þó var enginn glaðari en hann. Verið getur að hann hafi einhverstaðar átt stærra ljós en við hin. Lýsislampinn í dyrastafnum hætti nærri að bera birtu, kóngakertin á borðinu yfirgnæfðu birtu hans. Ljósafjöldinn hefur vafalaust mikið stuðlað að því að gera jólin svo dýrðleg sem þau voru í huga manna. Þessi smáljós, sem lýstu í lágum híbýlum dauðlegra manna, minntu á stóra alheimsljósið: barnið í jötunni.

Húslestrar voru þá engin nýjung. Þó fannst mér eitthvað meira við jólalestrana en vanalegt var. Þá var miklu meira sungið, og allir sungu, sem söngrödd höfðu. Ráðsmaðurinn var forsöngvarinn, hann söng laglega, en fátt kunni hann af nýjum lögum. Oftast var byrjað á þessum sálmi: Þjer, mikli guð, sje mesti prís! Vor mildi guð! vjer þökkum þjer, o.s.frv., eða jólasálminum: Með gleðiraust og helgum hljóm. Ekki voru sungnir færri en fjórir sálmar, tveir fyrir og tveir eftir, stundum meira. Á meðan faðir minn las og söng sjálfur, hafði hann sungið fjórtán sálma á aðfangadagskvöldið. Það er minna nú á dögum.

Skemmtanir voru engar á jólakvöldið, nema að lesa í bókum, og var fólkið að mestu leyti sjálfrátt um hvað það las. Móðir mín las í Biblíunni fyrir föður minn, þó einkum á jóladaginn. Við unglingarnir fengum að spila á spil, þó með því móti að hafa ekki hátt, það þótti ekki viðeigandi á aðfangadagskvöldið. Friður og helgi jólanna fylltu gömlu baðstofuna og ljómuðu á hverri brá.

Á jóladaginn spiluðu þær mamma og "Þobba mín" stundum púkk við okkur krakkana, það þótti okkur skemmtilegt. Annars vildi fólkið, sem kunni að spila, ekki spila við okkur, sem ekkert kunnum, en þær gömlu konurnar gerðu það fúslega og hirtu ekki um vankunnáttu okkar. Stundum var farið í jólaleiki á jóladagskvöldið, eða annan í jólum, og sungið, aldrei aðrar skemmtanir. Þetta nægði okkur, við gerðum ekki miklar kröfur.

Á fyrri tímum sat fólkið ekki við dúklagt borð á jólunum, með mörgum diskum á eins og nú tíðkast. Hver tók á móti sínum diski, kúfuðum af hangikjöti, feitu og mögru, ásamt brauði og smjöri. Á jóladagsmorguninn var eldaður hrísgrjónagrautur úr nýmjólk, með rúsínum í og var smjörsneið stungið ofan í grautinn, þegar skammtað var, hjá þeim sem vildu það.

Á nýárinu voru skammtaðar stórar rúgkökur - flatbrauð - reyktir lundabaggar og magálar, smjör og kæfa. Hún "Þobba mín" blessuð bjó til allar þessar stóru kökur og steikti þær á glóð. Hjá mörgum náði hátíðamaturinn saman, sumir geymdu hann sér til sælgætis langt fram yfir hátíðar. Hangiflot og tólg saman við var látið í spordalla og öskjur handa öllum á heimilinu, sem þessi ílát áttu, svo geymdi fólkið þessi ílát á hillu yfir höfðalagi sínu.

Ljós var látið lifa í baðstofunni bæði jólanóttina og nýársnótt. Á gamalárskvöld voru sungnir margir sálmar líkt og á jólunum. Þá var ætíð byrjað á þessum sálmi: Guð vors nú gæsku prísum. Í síðasta versinu voru síðustu hendingarnar ætíð tvíteknar og stundum þríteknar. Þær hljóða svona:

Í Jesú nafni nú

þín biðja börn ennfremur

blessa árið, sem kemur,

allra þörf uppfyll þú.

Á jóladaginn og nýársdag voru líka sungnir margir sálmar. Það var siður á flestum bæjum að syngja mikið á stórhátíðum. Ég heyrði talað um, að á einum bæ í Bitru hefðu verið sungnir fimmtán sálmar á jólanóttina. Það held ég að hafi líka verið hámarkið. Fyrir þessum sið er ekki hægt annað en bera virðingu. Þetta var saklaust og snerti engan óþægilega, því að vafalaust hefur allt heimilisfólkið tekið þátt í þessu. Þessi viðhafnarlausi sálmasöngur lyfti hugum og hjörtum jarðarbarnanna upp í hæðirnar.

Þannig voru bernskujólin mín.

Guðbjörg Jónsdóttir, húsfreyja á Broddanesi á Ströndum.

Úr endurminningabók Guðbjargar Gamlar glæður, þættir úr daglegu lífi á Ströndum á síðari hluta 19. aldar.

Helgi Hjörvar bjó til prentunar en Ísafoldarprentsmiðja h.f. gaf út.






×