Skoðun

Stöðugleika strax!

Árni Páll Árnason skrifar
Við verðum að setja efnahagslegan stöðugleika í öndvegi. Við getum ekki haldið áfram með hina endalausu hringrás milli bólu og kreppu. Við verðum að marka nýja leið, sem skapar okkur öllum betri lífskjör. Við höldum hvorki í okkar bestu fyrirtæki né okkar besta fólk með sama áframhaldi.

Brýnasta verkefnið er að verja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Við getum ekki verið leiksoppar lánardrottna um ókomna tíð. Þess vegna teljum við að ábyrgð í ríkisfjármálum skipti öllu máli. Við verðum að hætta að safna skuldum og hætta að borga 90 milljarða í vexti á hverju ári.

Ábyrg ríkisfjármál og stöðugt gengi eru líka lykilatriði til að halda niðri verðbólgu og vöxtum. Ekkert skapar meiri kjarabót fyrir heimilin. Ekkert skiptir meira máli til að fjölga atvinnutækifærum.

Verkefnið okkar er einfalt: Að afla meira en við eyðum.

Við þurfum ekki að bíða eftir niðurstöðum nefnda um verðtryggingu eða að innleysa á óvissum árafjölda hagnað af áhættuviðskiptum með eignir búa föllnu bankanna.

Við höfðum kjark til að taka á kröfuhöfunum og færa erlendar eignir þeirra undir höftin með marslögunum. Þá voru hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkur með. Við höfum líka kjark til þess að nýta þessa stöðu til að skapa þjóðinni allri ávinning af samningum við kröfuhafa, en ekki bara fáum útvöldum.

Samningsstaðan gagnvart kröfuhöfunum, sem við höfum skapað, og árangur í ríkisfjármálum, sem við höfum skapað, munu veita nýrri ríkisstjórn mörg tækifæri. Hún getur nýtt þau í þágu vildarvina, eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stefna nú að bæði leynt og ljóst.

Hún getur líka nýtt þau í þágu þjóðarinnar allrar, eins og við viljum. Heit mitt er það að Samfylkingin muni nýta allt það svigrúm sem fæst við hagstjórnina á komandi misserum að fullu í þágu íslenskra heimila og fyrirtækja.

Við munum áfram starfa með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Viltu frekar prófa hitt aftur?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×