Erlent

ICC mun rannsaka meinta stríðsglæpi í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Áfrýjunardómarar ICC sneru í morgun við ákvörðun annarra dómara ICC frá því í fyrra.
Áfrýjunardómarar ICC sneru í morgun við ákvörðun annarra dómara ICC frá því í fyrra. AP/Peter Dejong

Alþjóðasakamáladómstóllinn (ICC) hefur úrskurðað að rannsókn á meintum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu í Afganistan megi fara fram. Aðgerðir Bandaríkjanna, stjórnarhers Afganistan og Talibana verða rannsakaðar og þá sérstaklega ásakanir um stríðsglæpi. Bandaríkin eru þó ekki aðilar að ICC og viðurkenna ekki lögsögu dómstólsins yfir bandarískum borgurum.

Áfrýjunardómarar ICC sneru í morgun við ákvörðun annarra dómara ICC frá því í fyrra. Þá sögðu þeir að þrátt fyrir að líklega hefðu stríðsglæpir verið framdir í Afganistan yrði nánast ómögulegt að sakfella einhvern þar sem enginn aðili að málinu myndi starfa með dómstólnum.

Saksóknarar höfðu þá farið fram á umfangsmikla rannsókn á átökunum í Afganistan í kjölfar áratugslangrar undirbúningsrannsóknar.

Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur hótað því að beita starfsmenn ICC refsiaðgerðum og jafnvel sækja þá til saka í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Bandaríkjastjórn leggur refsiaðgerðir á starfsmenn Alþjóðasakamáladómstólsins

Mannréttindasamtök gagnrýndu þá ákvörðun harðlega. Með henni væri ICC að tryggja að ríki sem neita að viðurkenna dómstólinn og starfa með honum verði ekki dregin til ábyrgðar fyrir glæpi. Þar að auki væri verið að hunsa vilja fórnarlamba til að leita réttlætis.

Niðurstöðunni var áfrýjað og nú hafa dómarar komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir sem tóku ákvörðunina í fyrra hafi stigið út fyrir valdsvið þeirra.

Meðal annars eru Bandaríkjamenn sakaðir um pyntingar, kynferðisbrot og aðra glæpi sem aðallega má rekja til áranna 2003 og 2004. Talibanar eru sakaðir um að hafa myrt þúsundir almennra borgara og stjórnarherinn er meðal annars sakaður um að pynta fanga í haldi stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×