Sport

Mikið varið í ungu strákana

Ásgeir Sigurvinsson landsliðsþjálfari var mjög ánægður með spilamennsku íslenska liðsins í gær þrátt fyrir tap. Hann hrósar ungu leikmönnunum sérstaklega.  „Við spiluðum glimrandi leik og meira get ég ekki krafist, ég hef ekkert yfir leikmönnum að kvarta. Grétar Rafn, Gunnar Heiðar, Halli og Kári eru allt drengir sem gefa sig alveg hundrað prósent í þetta og stimpluðu sig vel inn. Svo áttum við langbesta manninn á vellinum, Eið Smára, sem sýndi hvað eftir annað frábær tilþrif." sagði Ásgeir Sigurvinsson, annar þjálfara íslenska landsliðsins að leik loknum. Mjög sáttur við leik liðsins  „Ég er mjög sáttur við leik okkar manna en því miður voru engin stig skilin eftir handa okkur. Við áttum svo sannarlega skilið að fá allavega eitt ef ekki fleiri stig úr þessum leik. Við komumst yfir en fengum síðan á okkur vafasamt víti, þetta var erfitt þar sem við misstum nánast þrjá af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Eiður fékk dauðafæri til að koma okkur yfir en við vorum óheppnir þar. Svo missum við Ólaf Örn af velli þegar hann fær sitt annað gula spjald í ódýrari kantinum og aftur fengum við á okkur víti en ég sá það ekki nægilega vel af bekknum. Það var samt gaman að sjá okkur komast inn í leikinn einum manni færri og jafna, það var mjög ánægjulegt hvað þessir drengir sýndu í dag og ég sé enga ástæðu til að vera eitthvað að örvænta með það. Það var virkilega súrt að fá þetta mark síðan á okkur sem tryggði þeim sigurinn, það var af ódýrari gerðinni." sagði Ásgeir. Ásgeir vildi lítið setja út á dómarana. „Það vill oft vera svona með þessa dómara að sunnan, súrt að fá spjöld fyrir mótmæli, ég spurði til dæmis Indriða hvað hann hefði sagt en hann sjálfur sagðist bara ekki vita það. Svo fær Ólafur gult spjalt þegar það er skotið í hann og svo kemur annað gult í seinna vítinu, er það ekki nógu mikil refsing að fá á sig vítaspyrnu?" Mikið um forföll Það verður mikið um forföll í leiknum á miðvikudaginn og sagði Ásgeir að það þyrfti eflaust að bæta eitthvað í hópinn fyrir þann leik. „Við höfum unga og efnilega leikmenn sem sýndu að mikið er varið í þá. Ég hef ekki trú á að Pétur Marteinsson og Gylfi Einarsson geti leikið á miðvikudag. Svo er spurning hvort Grétar Rafn Steinsson verði leikhæfur en hann stimplaði sig vel inn í leikinn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×