Skíðasvæðið Ischgl í Týrol í Austurríki hefur nú bæst í hóp skilgreindra áhættusvæða vegna kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Sóttvarnarlæknir ræður Íslendingum nú frá ónauðsynlegum ferðum til Kína, Suður-Kóreu, Írans og Ítalíu, auk Ischgl. Átta af þeim 26 Íslendingum sem nú hafa greinst með kórónuveiruna voru á skíðum í Ischgl.
Sjá einnig: Átta hinna smituðu voru á skíðum í Ischgl í Austurríki
Þetta þýðir að allir sem hafa verið á skíðasvæðinu Ischgl frá 29. febrúar eru beðnir um að fara í 14 daga sóttkví og tilkynna það til sinnar heilsugæslu. Ef viðkomandi finnur fyrir flensulíkum einkennum á að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.
Allir þeir sem verið hafa á svæðinu frá sama tíma, og eru auk þess með einkenni, eiga að hafa samband í síma 1700 og fara eftir leiðbeiningum þaðan um að fara í sýnatöku. Þeir sem hafa einkenni eiga að nota grímur og gæta allrar mögulegrar smitvarúðar. Sjá nánari upplýsingar um sóttkví í heimahúsi.
Voru á ferð í tveimur hópum
Líkt og áður sagði voru átta af þeim 26 Íslendingum sem nú hafa greinst með kórónuveiruna á skíðum í Ischgl og komu heim á sunnudaginn með vél Icelandair í Munchen. Hinir átján höfðu verið á skíðum á Norður-Ítalíu.
Þeir átta sem hafa greinst eftir ferðalag til Ischgl voru á ferð í tveimur hópum. Hóparnir voru á skíðum á sama tíma og á sama skíðasvæði en ekki öll á sama hóteli. Einhverjir veitingastaðir tengja þó hópana saman.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur opnað gagnagrunn fyrir Íslendinga erlendis sem óska eftir að vera á skráðir hjá utanríkisráðuneytinu og upplýstir um ferðaráð vegna COVID-19 veirunnar á meðan á dvöl þeirra stendur.
Nýja kórónaveiran (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar. Einkenni eru helst hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Veiran getur valdið alvarlegum veikindum hjá þeim sem veikir eru fyrir og lýsir það sér með sýkingum í neðri öndunarfærum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.