Erlent

Íhuga að ákæra feðgana fyrir hatursglæp

Sylvía Hall skrifar
Gregory og Travis McMichael, eftir að þeir voru handteknir.
Gregory og Travis McMichael, eftir að þeir voru handteknir. Vísir/AP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna íhugar hvort kæra eigi feðgana Gregory og Travis McMichales fyrir hatursglæp. Fegðarnir skutu hinn 25 ára gamla Ahmaud Arbery til bana í febrúar þegar hann var úti að skokka í bænum Brunswick í Glynn-sýslu.

Málið komst í hámæli í síðustu viku þegar myndband af morðinu fór í dreifingu. Fram að því hafði það flakkað milli saksóknara innan ríkisins en tveir af þremur héraðssaksóknurum sögðu sig frá málinu vegna tengsla við Gregory McMichaels, sem er fyrrverandi lögregluþjónn. Málið fjaraði á endanum út og hafði fjölskyldan gefið upp alla von að réttlæti yrði náð fram í málinu þar til myndbandið komst í dreifingu.

Á vef BBC kemur fram að feðgarnir verði ákærðir fyrir morð og árás vegna dauða Arbery en ákæra fyrir hatursglæp er sögð einnig koma til greina. Sögðust þeir telja hann mögulega tengjast innbrotum á svæðinu og ákváðu því að vopnbúast og aka á eftir honum. Þá fullyrða þeir að Arbery hafi ráðist á Travis þegar þeir báðu hann um að ræða við sig.

Faðir Arbery segir ljóst að kynþóttafordómar hafi orðið syni hans að bana. Hann hafi verið í sakleysi sínu að hlaupa leið sem hann hafði margoft hlaupið áður og engin ástæða til að ætla að hann hafi gert nokkuð saknæmt. Þvert á móti hafi sonur sinn verið góður drengur og viljað öllum vel.

Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu segir að málið verði rannsakað og í kjölfarið ákveðið hvort tilefni sé til að ákæra fyrir hatursglæp. Gripið verði til aðgerða í samræmi við lög og staðreyndir málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×