Enn stendur til að Ísland mæti Englandi, Belgíu og Danmörku í haust í Þjóðadeild UEFA í fótbolta karla þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi sett mótahald um alla Evrópu úr skorðum.
Þetta segja enskir miðlar á borð við The Telegraph og Daily Mirror. Landsliðsmótanefnd UEFA fundaði í dag og mun þar hafa rætt um möguleikann á að landsliðin leiki þrjá leiki í hverjum „landsleikjaglugga“ í haust, í stað tveggja áður. Ísland mun líkt og aðrar þjóðir í A-deild Þjóðadeildarinnar leika þrjá leiki á heimavelli og þrjá á útivelli, eða sex leiki alls, og hefur hingað til staðið til að leikið yrði í þremur gluggum, í september, október og nóvember. Fyrsti leikur Íslands er við England 5. september á Laugardalsvelli, ef ekkert breytist.
Óttast hefur verið að Þjóðadeildinni verði aflýst svo að hægt verði að skapa pláss í leikjadagskrá haustsins, til að mynda fyrir Meistaradeildina, en það er ekki stefna UEFA sem þarf einnig að koma fyrir EM-umspilinu sem Ísland tekur þátt í.
Til stóð að lokakeppni Þjóðadeildarinnar færi fram sumarið 2021 en nú hefur lokakeppni EM verið sett á frá 11. júní til 11. júlí. UEFA mun enn vonast til að úrslit Þjóðadeildarinnar ráðist á næsta ári, og þá væntanlega í október eða nóvember.