Varðskipinu Óðni var siglt úr höfn og aðalvélar þess ræstar í fyrsta sinn í tæp fimmtán ár í dag. Sextíu ár eru liðin frá því að skipið kom til landsins, þá nýsmíðað frá Danmörku.
Óðinn tók þátt í landhelgisdeilum á Íslandsmiðum og kom við sögu í ýmsum björgunaraðgerðum við Íslandsstrendur á síðari hluta tuttugustu aldar. Síðan 2008 hefur varðskipið verið varðveitt sem safnskip við Vesturbugt í Reykjavík, en félagar Hollvinasamtökum Óðins hafa síðust ár unnið að viðhaldi þess.
Samkvæmt upplýsingum af vef Borgarsögusafnsins hefur Óðinn dregið alls tæplega 200 skip til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Þá hefur hann dregið flutninga- og fiskiskip fjórtán sinnum úr strandi. Öflugasta vopn skipsins var engin smásmíði, 57 millimetra fallbyssa, sem staðsett var á palli fyrir framan brú skipsins.
Skipið var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1959, þá 910 tonn að þyngd, 63 metrar á lengd og 10 metrar á breidd.