Erlent

Telur breska kvótakerfið hafa brugðist

Í Bretlandi er líkt og hér á landi hávær umræða um kvótakerfið. sjávarútvegsráðherra Breta segir kerfið hafa brugðist. Óþolandi sé að einstaklingar eða félög sem ekki komi nálægt sjávarútvegi fái kvóta sem þeir geti selt einsog hverja aðra vöru.

Þeir eru kallaðir slipper skippers í Bretlandi. Það mætti þýða sem inniskósskipstjórar á íslensku. Og þeir eru ekki vel séðir. Bæði þingmenn og ráðherrar eru sammála um að það verði að binda enda á þetta fyrirkomulag. Lagt hefur verið til að strandveiðiskip fái meira í sinn hlut.

Innisskósskipstjórarnir eru einstaklingar og fyrirtæki sem leggja ekki sjálf stund á fiskveiðar en fá úthlutað kvóta samkvæmt reglum frá 1999. Og inniskórnir eru í fullum rétti að selja kvótann áfram til þriðja aðila eins og hverja aðra vöru. Ekkert eftirlit hefur verið með því hverjir eiga kvóta.

Frá 1999 hefur kvótanum nær eingöngu verið úthlutað til skipa sem eru yfir tíu metrar. Það er úthafsflotinn. Fiskiskip undir tíu metrum sem kölluð eru strandveiðiskip fá nánast engan kvóta. Þau verða að slást um veiðiheimildir úr pottum.

Í nýrri skýrslu um breskan sjávarútveg er meðal annars lagt til að kvóta skuli aðeins úthlutað til starfandi fiskimanna og útgerða. Telja má víst að róttækar breytingar verði gerðar á úthlutun fiskveiðiheimilda á næstunni. Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra, sagði í samtali við Sky fréttastofuna alla þætti kvótakerfisins hafa brugðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×