Skoðun

Stóra regnhlífin?

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Í langtímastjórnmálum snúast verkefnin um að móta helstu grunnþætti samfélagsins, ýmist ýta þeim í átt að miklum jöfnuði og völdum alþýðu manna eða í hina áttina, sem lengst að úrslitaáhrifum fjármagns og markaðar.

Um þetta eru stofnaðir flokkar og enn aðrir raða sér á milli pólanna. Í stjórnmálum kjörtímabilsins og daglegum samfélagsrekstri eru málefnin margþættari og nærtækari og fólk uppteknara af þeim en þróuninni til áratuga. Á þessum seinni vettvangi eru flokkarnir jafnan starfsamari en við störf að endurmótun samfélagsins, enda þótt þarna séu alls ekki skörp skil á milli.

Þegar nú Margrét S. Björnsdóttir (S) rifjar upp nauðsyn þess að vinstrisinnað fólk sameinist til verka er vert að halda mun á langtíma- og skammtímamarkmiðum í stjórnmálastarfi til haga. Enn fremur verður að rifja upp tilraunir Vilmundar Gylfasonar til að mynda raunverulega samfylkingu vinstri smáflokka og stærri flokka fyrir margt löngu. Í þeim sviptingum tók ég þátt, áður en ég steig út fyrir flokkssviðin snemma á níunda áratugnum. Tilraunin mistókst eins og sagan vitnar um.

Sveigjanleg stefna

Ólíkum vinstristefnum um grunnþætti samfélagsins er ekki áskapað, eins og einhverju náttúrufyrirbæri á borð við þúsundfætlu, að geta ekki náð saman um vitrænan samfélagsrekstur til fáeinna ára í senn.

Áfram geta menn í regnhlífasamtökum margra félagshyggjusamtaka (á borð við bandalagið sem stofna átti á sínum tíma) deilt um margt og þróast á sínum forsendum. En fólkið kemur sér þó meðvitað saman um fáeina grunnþætti samstarfs; skýra langtímaviljayfirlýsingu.

Hún snýst t.d. um eindregna beygju samfélagsins til jöfnuðar og frelsis einstaklinga, um mannréttindi, auðlindastefnu, umhverfismál og fleira. Til viðbótar koma menn sér svo saman um sveigjanlega stefnu í helstu úrlausnarefnum dagsins hverju sinni. Í því liggur slagkrafturinn.

Það er gert á lýðræðislegan hátt og gengið út frá því að minnihluti sem til verður við vandaða ákvörðun í tilteknu málefni virði vilja meirihlutans hverju sinni. Þannig myndast öflug og starfhæf heild hvað sem skoðanamun líður. Um leið þarf að spyrja almenning um upplýsta afstöðu í veigamiklum málum.

Hafi Margrét og fjölmargir aðrir sem harma sundurlyndi á vinstri vængnum hug á að „sameina félagshyggjufólk“ þarf að huga að rammanum og starfsháttunum, fyrst af öllu.




Skoðun

Sjá meira


×