Skoðun

Kálsopi

Líf Magneudóttir skrifar
Það er orðið hálfgert tískufyrirbæri íslenskra stjórnmálamanna að boða sparnað með sameiningu ríkisstofnana. Vissulega er það ágætis leið þegar það er mögulegt að ná niður kostnaði með sameiningunum. En vel skal vanda það sem lengi skal standa segir máltækið og vísast er þörf á því að skipulag opinberra stofnana sé eins og best verður á kosið. Í því felst auðvitað að þjónustan sé góð og aðgengileg fyrir borgarana á sama tíma og reynt er að koma í veg fyrir alla sóun og bruðl. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leiddi aldeilis í ljós brotalamir á íslenskri stjórnsýslu og er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að sleifarlag fái að viðgangast í ríkiskerfinu, sem og annars staðar.

Hins vegar eru til mýmörg dæmi um að sameiningar hafi orðið til trafala bæði í einkageiranum og hinum opinbera. Fyrir því eru margar ástæður. Í sumum tilvikum flækist stjórnkerfið um of og boðleiðir verða flóknar sem gerir vinnuna erfiðari. Í öðrum tilvikum passar kúltúrinn einfaldlega ekki saman. Að ná fram hagræðingu úr sameiningum stofnana eða fyrirtækja getur tekið talsverðan tíma, jafnvel mörg ár, og þarfnast alltaf nokkurrar yfirlegu.

Sjálfsagt er það þess vegna sem mörgum brá í brún þegar nýr meirihluti í Reykjavík tilkynnti um stórfelldar breytingar á nefndaskipulagi Reykjavíkurborgar. Hagræðingin tók ekki nema fimmtán daga. Vitaskuld er enginn á móti hagræðingu og aðhaldi og ætla ég síst af öllum að setja mig upp á móti því að reynt sé að spara á þessum síðustu og verstu tímum. Ég verð að treysta því að um sé að ræða úthugsaðar tillögur og að allar ákvarðanir hafi verið teknar af mikilli yfirvegun og skynsemi. Hins vegar má ætla að nýr meirihluti hafi verið að flýta sér dálítið þegar í ljós kom við skipun formanns stjórnar Strætó bs. að fulltrúi Besta flokksins uppfyllti ekki starfsgengisskilyrðin. Hefur einhverjum líklega láðst að fletta upp lögum og reglum í því tilviki. En þar gildir vonandi hið fornkveðna: Fall er faraheill!










Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×