Tónlist

Útgáfutónleikar hjá Felix

Flott band Jón Ólafsson, Stefán Már Magnússon, Benedikt Brynleifsson, Róbert Þórhallsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir verða öll með Felix Bergssyni á tónleikum hans í kvöld.
Fréttablaðið/hag
Flott band Jón Ólafsson, Stefán Már Magnússon, Benedikt Brynleifsson, Róbert Þórhallsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir verða öll með Felix Bergssyni á tónleikum hans í kvöld. Fréttablaðið/hag
Felix Bergsson heldur fyrri útgáfutónleika sína af tvennum í Salnum í Kópavogi í kvöld. Felix gaf nýverið út plötuna Þögul nóttin en þar syngur hann ný lög við ástarljóð Páls Ólafssonar. Meðal lagahöfunda á disknum eru Jón Ólafsson og Magnús Þór Sigmundsson en sérstakir gestir á tónleikunum verða þær Valgerður Guðnadóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir.

Eins merkilega og það kann að hljóma er Þögul nóttin fyrsta sólóplata Felix sem verður að teljast nokkuð sérstakt í ljósi þess hversu lengi hann hefur verið í „bransanum“.

Felix segir sjálfur enga eina skýringu á því. „Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda og hefur verið að malla í kollinum á mér í mörg ár. Þegar ég datt niður á þessi ljóð Páls Ólafssonar í yndislegri bók Þórarins Hjartarsonar þá fannst mér ég vera kominn með eitthvert efni til að vinna úr,“ segir Felix og bætir því við að honum finnist bókin vera mjög persónuleg.

Einvalalið leikur með Felix á tónleikunum í kvöld; við píanóið situr Jón Ólafsson, bassann plokkar Róbert Þórhallsson og Stefán Már Magnússon spilar á gítar. Eurovision-farinn Benedikt Brynleifsson lemur húðirnar og Snorri Sigurðarson blæs í trompetinn. Tónleikarnir hefjast á slaginu átta. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×