Landsréttur hafnaði kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni um fimmtugt sem er grunaður um að hafa valdið dauða manns í Úlfarsárdal í desember. Þess í stað var sá grunaði úrskurðaður í farbann til 13. febrúar.
Karlmaður á sextugsaldri lést af meiðslum sínum eftir að hann féll fram af svölum fjölbýlishúss í Úlfarsárdal 8. desember. Fimm karlmenn frá Litháen voru handteknir í tengslum við dauða mannsins. Einn þeirra var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald sem hann hefur setið í síðan.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum í síðustu viku en Landsréttur felldi úrskurðinn úr gildi í dag. Töldu dómarar við Landsrétt að óvissa væri um atburðarásin sem leiddi til dauða mannsins. Vitnum beri ekki saman um þýðingarmikil atriði. Því hefði lögreglan ekki sýnt fram á að sterkur grunur væri um að maðurinn sem setið hefur í gæsluvarðhaldi hefði brotið lög. Þá taldi rétturinn ekki lengur rannsóknarhagsmuni til staðar sem réttlættu áframhaldandi gæsluvarðhald.
Maðurinn var hins vegar úrskurðaður í farbann til 13. febrúar. Vísaði Landsréttur til þess að maðurinn sé erlendur ríkisborgari sem hafi óveruleg tengsl við landið og eigi enga fjölskyldu hér á landi. Því sé talin hætta á að hann reyni að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða refsingu. Fyrir hendi sér rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um hegningarlagabrot sem geti varðað fangelsisrefsingu.