Erlent

Hrottalegt dýraofbeldi í sjónvarpsauglýsingu

Áströlsku grasrótarsamtökin GetUp! vinna nú hörðum höndum að því að koma átakanlegri auglýsingu í sjónvarpið þar sem sjá má hrottalega meðferð á dýrum sem flutt eru frá Ástralíu til Indónesíu. Rúmlega tvö hundruð þúsund Ástralir rituðu nafn sitt á undirskriftalista sem afhentur var á ástralska þinginu í gær en undirskriftunum var safnað á aðeins tveimur dögum.



Sjónvarpsauglýsingunni er beint til Juliu Gillard, forsætisráðherra landsins, og undir vægast sagt erfiðum myndbrotum er hún beðin að binda enda á ofbeldið með því að banna útflutning á lifandi búfénaði þar í landi. Takist samtökunum að safna nægu fé í tæka tíð, mun auglýsingin birtast á Sky News sjónvarpsstöðinni þar í landi á morgun; bæði á meðan að á Opna franska tennismótinu stendur og í miðjum kvikmyndasýningum kvöldsins.



Haft var eftir Mary Jo Fisher, þingmanni íhaldsmanna, að að hennar mati myndi bann á útflutningi á búfénaði aðeins koma niður á áströlskum bændum en lítið gera til að stöðva ofbeldið sem ætti sér stað í Indónesíu. Dýraunnendur sem heimtuðu slíkt bann væru velviljaðir en illa upplýstir.



Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá auglýsinguna sem um ræðir, en vert er að hafa í huga að hún sýnir afar illa meðferð á dýrum, og er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu samtakanna
http://www.getup.org.au/




Fleiri fréttir

Sjá meira


×