Bíó og sjónvarp

Justice League tekin upp að hluta á Íslandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vinstri: Þau Henry Cavill, Gal Gadot og Ben Affleck verða öll meðal leikara í Justice League.
Frá vinstri: Þau Henry Cavill, Gal Gadot og Ben Affleck verða öll meðal leikara í Justice League.
Bandaríska stórmyndin Justice League verður að hluta til tekin upp hér á landi. Þetta kemur fram í frétt á vef Entertainment Weekly í dag.

Justice League er ofurhetjumynd af stærstu gerð og koma þar allar helstu ofurhetjur DC-Comics, svo sem Ofurmennið, Leðurblökumaðurinn og Undrakonan, við sögu. Myndinni er ætlað að vera nokkurs konar svar við Avengers-myndabálk Marvel, sem hefur notið gífurlegra vinsælda síðastliðin ár.

Að því er kemur fram í frétt Entertainment Weekly hefjast tökur á myndinni þann 11. apríl næstkomandi. Þær fara að mestu leyti fram á Englandi en einnig hér á landi.

Undirbúningur myndarinnar hefur lengi staðið yfir og til að mynda var búið að ráða George Miller, leikstjóra Mad Max-myndanna, til að leikstýra slíkri mynd árið 2007 en hætta þurfti við á síðustu stundu vegna verkfalls handritshöfunda vestanhafs.

Kvikmyndin Batman v. Superman: Dawn of Justice er væntanleg í kvikmyndahús í næsta mánuði en þar eru kynntar til sögunnar fjölmargar af þeim ofurhetjum sem skipa stórskotaliðið í Justice League.

Leikarar þeirrar myndar, Henry Cavill, Ben Affleck, Gal Gadot og fleiri, munu aftur fara með aðahlutverkin í Justice League og þá verður leikstjórinn Zack Snyder sömuleiðis áfram við stjórnvölinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.