Innlent

Stuðningur Íslendinga getur skipt miklu máli

Fulltrúi líbíska þjóðarráðsins, bandalags uppreisnarmanna, segir að stuðningur Íslendinga geti skipt miklu máli við að koma Gaddaffi einræðisherra frá völdum og stuðla að lýðræði í landinu.

El Gamaty, fulltrúi líbíska þjóðarráðsins, er staddur hér á landi en hann fundaði með utanríkisráðherra í morgun. Markmið fundarins var upplýsa íslensk stjórnvöld um ástandið í Líbíu og ennfremur að óska eftir pólitískum stuðningi. Gamaty segir að ástandið í Líbíu sé slæmt. „Drápin halda enn áfram, þjáningarnar halda áfram, en um leið verða hersveitir Gaddafis veikari með hverjum degi sem líður og líbíska þjóðin og uppreisnarmennirnir verða sífellt sterkari og sækja fram á hverjum degi."

Er stuðningur lítils ríkis eins og Íslands mikilvægur? „Já, við teljum að Ísland, þótt lítið sé og fámennt, sé engu að síður mikilvægt. Ísland er í NATO, Ísland er lýðræðisríki, það er háþróað og Íslendingar eru hæfileikaríkir og kunnáttusamir, reynslumiklir og búa yfir sérfræðiþekkingu. Slíkt getur hjálpað litlu landi eins og Líbíu. Íbúarnir hjá okkur eru miklu fleiri en þó ekki nema fimm og hálf milljón og við viljum efla samskiptin við alla, sérstaklega í Evrópu og Norður-Evrópu," segir El Gamaty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×