Innlent

Vilja lögin tafarlaust felld úr gildi

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Mynd/ GVA
Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að nema breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, sem var staðfest á Alþingi undir lok síðasta árs, úr gildi tafarlaust, þar sem á lögunum séu alvarlegir meinbugir. Samtökin hafa nú sent kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA en þau telja að álits stofnunarinnar hefði átt að leita áður en lögin voru samþykkt.

Að sögn Andreu Jóhönnu Ólafsdóttur, formanns samtakanna, eru lögin vafasöm á marga vegu. Meðal annars sé afturvirkum innheimtuaðgerðum beitt á kostnað lántakenda en vextir á lánum sem fengin voru í gildistíð eldri laga séu nú endurreiknaðir eftir reglum nýju laganna. Þá sé farið eftir upphaflegri lánsfjárhæð, þó svo hluti lánsins sé þegar greiddur. Auk þess brjóti lögin í bága við aðrar meginreglur kröfuréttar, neytendaverndar og jafnvel Stjórnarskrár.

Lögin kveður hún einnig vera afar óskýr. Hún segir það undirstrikast af þeirri staðreynd að lagastofnanir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hafi hvorug séð sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna. Aðspurð hvernig Hagsmunasamtök heimilanna vilji sjá lögunum breytt bendir hún á að þó svo gengistryggingin hafi verið dæmd ólögleg þýði það ekki að vaxtaákvæði samninganna geti ekki staðið óbreytt. Mikilvægast sé þó að núgildandi lög séu felld niður og ný séu samin sem samræmist öðrum reglum réttarkerfisins og evróputilskipana.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, tekur heils hugar undir áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna en hún hefur þegar lagt fram frumvarp um afnám laganna sem enn bíður eftir að komast á dagskrá þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×