Viðskipti erlent

House of Fraser lýkur 46 milljarða skuldabréfaútgáfu

Verslunarkeðjan House of Fraser hefur lokið við skuldabréfaútgáfu upp á 250 milljónir punda eða ríflega 46 milljarða kr. Með þessu hafa bankaskuldir keðjunnar verið endurskipulagðar.

Slitastjórn/skilanefnd Landsbankans fer með 35% eignarhlut í House of Fraser í gegnum Highland Group Holding, móðurfélag House of Fraser. Þessi hlutur var áður í eigu Baugs.

Í frétt um málið í Financial Times segir að töluverð umframeftirspurn hafi verið í skuldabréfaútgáfu House of Fraser en bréfin eru með 8,875 vöxtum sem greiddir eru árlega en bréfin verða svo gerð upp í einu lagi að sjö árum liðnum.

Fram kemur í Financial Times að samhliða skuldabréfaútgáfunni hafi House of Fraser fengið 70 milljón punda lánlínu frá nokkrum bönkum sem lið í endurskipulagningu á fjármálum keðjunnar. Það eru bankarnir Deutsche Bank, Barclays, HSBC og Lloyds sem leggja lánalínuna til.

Skuldabréfin verða skráð í kauphöllina í Lúxemborg og þar með er House of Fraser skylt að greina frá afkomu sinni þar ársfjórðungslega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×