Hin 113 ára gamla María Branyas er talin vera elsti einstaklingurinn sem hefur jafnað sig af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. Branyas sem býr í Olot í Girona á Spáni varð 113 ára gömul í byrjun mars og er elsti núlifandi einstaklingur landsins.
Hún fæddist þann 3. mars árið 1907 í San Francisco í Bandaríkjunum. Samkvæmt umfjöllun El Mundo greindist hún með veiruna í apríl en hefur nú jafnað sig.
Dóttir hennar segir hana við góða heilsu þó hún hafi áður misst mest alla sjónina og heyrn. Branyas segir að henni hafi leiðst mikið í einangruninni. Nú vilji hún hitta sem flesta og ræða allt sem hún getur.
Þá hefur hún viljað koma þökkum til starfsmanna dvalarheimilisins sem hún býr á.
Branyas eignaðist þrjú börn, ellefu barnabörn, með það elsta orðið sextugt, og þrettán barnabarnabörn.
Samkvæmt El Mundo hlakkar fjölskylda Branyas mjög til þess að geta heimsótt hana aftur.