Innlent

37 milljónir til atvinnulausra ungmenna

Frá Akureyri.
Frá Akureyri.

Tilkynnt var um stofnun Fjölsmiðju á Akureyri á aðalfundi Rauða kross Íslands í dag. Fjölsmiðja er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu þar sem ungmennum er hjálpað við að finna sér stað í vinnu eða námi.

Rauði krossinn leggur til 15 milljónir króna í stofnkostnað Fjölsmiðjunnar, Akureyrarbær leggur til 10 milljónir, Vinnumálastofnun 5 milljónir og menntamálaráðueytið 2 milljónir króna. Fjölsmiðjunni á Akureyri er ætlað að virkja ungt fólk á Eyjafjarðarsvæðinu sem á í síendurteknu atvinnuleysi til að mynda vegna reynsluleysis, menntunarskorts, félagslegra og/eða andlegra vandamála, og aðstoða það við að finna sér nýjan farveg í lífinu.

Fjölsmiðjan er vinnusetur þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám. Byggt verður á reynslu Fjölsmiðjunnar í Kópavogi sem Rauði krossinn hafði frumkvæði að því að komið var á fót árið 2000 þar sem hefur sýnt sig að fjölda ungmenna hefur tekist að fóta sig á nýju í lífinu eftir starf sitt þar.

Einnig var á aðalfundinum samþykkt ný og endurskoðuð stefna Rauða krossins til næstu þriggja ára. Með stefnunni er verið að bregðast við niðurstöðu könnunar sem félagið lét gera á síðasta ári um hverjir það eru sem verst standa í íslensku þjóðfélagi. Könnunin leiddi í ljós brýna þörf á að efla starf með innflytjendum og sporna gegn félagslegri einangrun.

Sérstök áhersla er því lögð á í nýrri stefnu að starfa með innflytjendum til að auðvelda gagnkvæma aðlögun - bæði með því að efla þátttöku þeirra í starfi Rauða krossins og eins að auka þjónustu við innflytjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×