Heilsa

Kristjanía bráttá tímamótum

Aðalhlið Kristjaníu Aftan á hliðinu stendur á ensku: „You are now entering the EU.“nordicphotos/AFP
Aðalhlið Kristjaníu Aftan á hliðinu stendur á ensku: „You are now entering the EU.“nordicphotos/AFP
Ekki eru nema fáeinar vikur síðan ungmenni í Kaupmannahöfn efndu til harkalegra mótmæla gegn aðgerðum stjórnvalda þegar Ungdómshúsið á Norðurbrú var rýmt og síðan rifið fáeinum dögum síðar. Dögum saman ríkti nánast stríðsástand í borginni og ákveðinn hluti mótmælenda vílaði ekki fyrir sér að beita ofbeldi, eins og að kasta grjóti í lögregluþjóna og kveikja í bifreiðum. Á mánudaginn mátti sjá sams konar myndir á ný frá Kaupmannahöfn, en að þessu sinni var verið að mótmæla niðurrifi á hálfbrunnu húsi í fríríkinu Kristjaníu þar sem gamlir hippar og fólk sem telur sig ekki falla vel að samfélaginu hefur skapað sér athvarf. Þetta hús var reyndar varla nema timburkofi, jafnan kallaður „Cigarkassen“ eða Vindlakassinn af íbúum Kristjaníu. Hann brann að hluta fyrir fimm árum og hefur staðið mannlaus síðan, þótt útigangsfólk hafi stundum leitað sér þar athvarfs. Í rauninni stóð aðeins eftir grindin ein.Atvinnumótmælendur
Á fögrum haustdegi Hinn 26. september síðastliðinn ríkti gleði og ánægja þegar íbúar Kristjaníu héldu upp á 35 ára afmæli fríríkisins.fréttablaðið/AP
Viðbrögðin við niðurrifinu urðu miklu meiri og harðari en stjórnvöld og lögregla reiknuðu nokkurn tímann með. Sannkallað stríðs­ástand skall á í Kristjaníu og næsta nágrenni þegar mótmælendur flykktust að, reistu götuvígi og kveiktu í þeim, kveiktu í bifreiðum og köstuðu grjóti í lögregluna. Bæði íbúar Kristjaníu og þeir sem skipulögðu mótmæli vegna Ungdómshússins hafa hins vegar svarið af sér alla ábyrgð á ofbeldinu sem beitt var. Þeir segjast ekki hafa hvatt til ofbeldis. Þvert á móti hafi þeir hvatt fólk til að mótmæla með friðsamlegum hætti. „Þetta virðist vera aðallega ný kynslóð mótmælenda, fólk sem kemur hingað gagngert til að mótmæla stjórnvöldum og lögreglu og hikar ekki við að beita ofbeldi. Þetta er mjög nýtt hérna í Danmörku,“ segir Jón Hnefill Jakobsson, sem er búsettur í Kaupmannahöfn og hefur fylgst grannt með málefnum Ungdómshússins og Kristjaníu undanfarið. „Þetta er fólk sem skipuleggur aðgerðir mikið til á netinu og með sms-skilaboðum. En lögreglan veit hverjir forsprakkarnir eru og það virðist duga þessi gamla taktík að taka burtu höfuðpaurana.“Valdníðsla
Rústir Vindlakassans Grindin af kofanum sem brann árið 2002. fréttablaðið/Slots- og ejendomsstyrelsen
Íbúar Kristjaníu mótmæltu vissulega aðgerðum lögreglunnar og beittu til þess ýmsum öðrum aðferðum en ofbeldi. Meðal annars gerðu þeir sér lítið fyrir og reistu kofann á ný í skjóli nætur. „Þetta er bara Kristjaníuhúmor,“ sagði einn íbúa Kristjaníu um þær aðgerðir í viðtali við danska dagblaðið Politiken í vikunni. „Við gerum svolítið at í fólki til að leggja áherslu á að þetta var óþarfa valdníðsla.“ Yfirvöld segjast ætla að rífa niður nýbygginguna við tækifæri. Valdníðslan felst í því að stjórnvöld ætli sér að grípa fram fyrir hendur íbúa Kristjaníu og í raun taka stjórnina í eigin hendur. Íbúar fríríkisins treysta ekki stjórnvöldum og telja einsýnt að lögreglan, borgarstjórnin og ríkisstjórnin ætli til lengri tíma litið að svipta Kristjaníubúa þeirri sérstöðu sem þeir hafa haft síðustu áratugina.Íbúalýðræði
Skammist ykkar! Íbúar og aðrir velunnarar Kristjaníu voru vægast sagt ósáttir við niðurrif Vindlakassans. fréttablaðið/AP
Sérstaðan felst ekki síst í því að inn á við er stjórnskipan Kristjaníu byggð á opnu íbúalýðræði sem virkar þannig að allar ákvarðanir eru teknar á sameiginlegum íbúafundi, og ef einhver vill til dæmis flytja þangað þarf hann að fá samþykki til þess á slíkum fundi. Hver íbúi greiðir sömuleiðis fast mánaðargjald, eins konar leigu, í sameiginlegan sjóð sem meðal annars er notaður til að greiða skatt til ríkisins og fyrir viðhaldi og endurnýjun. Íbúarnir reka fjölmörg fyrirtæki af ýmsu tagi, ekki síst veitingarekstur, handverksiðnað og verkstæði af ýmsu tagi. Þarna eru einnig nokkrir leikskólar enda stór hluti íbúanna á barnsaldri. Skoðanir fólks á Kristjaníu og íbúum þess, sem nú eru um 800 talsins, hafa hins vegar alla tíð verið skiptar. Margir líta á þetta litla þorp í hjarta Kaupmannahafnar sem hreina paradís þar sem mannlíf getur þrifist með allt öðrum hætti en venja er til í nútímasamfélagi. Öðrum er Kristjanía stór þyrnir í augum. Þeir sjá ekki betur en að þarna dafni hreinasti ólifnaður og íbúarnir þykist geta verið „stikkfrí“ frá samfélaginu, skyldum þess og sköttum. Þarna hafa meðal annars búið nokkrir Íslendingar, einkum á árunum um og upp úr 1980 en ekki er vitað til þess að neinn Íslendingur búi þar nú.Skattar og skyldur
Stríðsástand Á mánudaginn brutust út harkalegri mótmæli en nokkur hafði átt von á.fréttablaðið/Teitur
Kristjanía var stofnuð haustið 1971 þegar hópur ungmenna lagði undir sig yfirgefnar herbúðir á Kristjánshöfn stutt frá miðbænum í Kaupmannahöfn. Frá upphafi var það yfirlýst stefna íbúanna að Kristjanía skyldi vera „fríríki“, sérstakt samfélag utan við dönsk lög og danskar reglur. Því til áréttingar stendur skrifað stórum stöfum enn í dag innan á aðalhliði Kristjaníu: „Þú ert nú að fara inn í Evrópusambandið“. Þótt sérstaða Kristjaníu sé töluverð er þó engan veginn rétt að tala um „fríríki“ nema í afar takmörkuðum skilningi. Landsvæðið allt og gömlu byggingarnar, sem herinn notaði áður fyrr, eru til dæmis enn í eigu danska ríkisins. Íbúarnir greiða skatt eins og aðrir íbúar Danmerkur, hvort sem þeir sækja vinnu utan Kristjaníu eða stunda eigin atvinnurekstur innan svæðisins. Sum fyrirtækin í Kristjaníu eru opinberlega skráð og um þau gilda sömu skattareglur og um önnur dönsk fyrirtæki, en sérstaðan felst að nokkru í því að óskráðum fyrirtækjum er heimilt að starfa innan Kristjaníu. Af þeirri starfsemi er hins vegar greiddur sameiginlegur skattur á nafni Kristjaníu.Umdeild áformÁrið 1989 voru sett sérstök lög um Kristjaníu þar sem íbúunum var formlega veitt heimild til sjálfstjórnar á vissum sviðum, en jafnframt gerðar kröfur til þeirra um að sinna viðhaldi svæðisins og húsakostsins þar. Árið 2004, þegar hægri stjórn var tekin við völdum í Danmörku, voru síðan sett ný lög sem gera ráð fyrir töluverðum breytingum í Kristjaníu á næstu árum, þótt engan veginn sé gert ráð fyrir því að leggja niður Kristjaníu. Í lögunum segir að markmiðið sé að setja almenna umgjörð um „nýja þróun á svæðinu, með svigrúm fyrir fólk til að lifa annars konar lífi innan ramma almennra laga“. Jafnframt var umsjón svæðisins flutt frá varnarmálaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins og hefur síðan verið á hendi Slots og Ejendomsstyrrelsen, stofnunar sem heyrir undir fjármálaráðuneytið og hefur á sinni könnu umsýslu með höllum og öðrum fasteignum danska ríkisins. Á vegum þessarar stofnunar var fljótlega hafist handa við að skipuleggja framtíð Kristjaníusvæðisins, og er gert ráð fyrir að endurnýja húsakostinn að stórum hluta, hreinsa upp menguð svæði og vernda sögulegar minjar frá því danski herinn hafði þarna aðstöðu. Nú í haust náðist, að mati stofnunarinnar, samkomulag við fulltrúa Kristjaníu um þátttöku þeirra í þessum fyrirhuguðu framkvæmdum, en eftir áramót varð ljóst að almennt voru íbúar Kristjaníu engan veginn sáttir við áform stjórnvalda. Íbúafundur hafnaði þessum samningi. Eftir það hefur allt verið í járnum og íbúarnir virðast margir hverjir telja aðgerðir lögreglunnar nú á mánudaginn einungis lið í að brjóta samstöðu þeirra á bak aftur.







×