Erlent

Dregur úr HIV-smitum

MYND/AP
HIV smitum fækkaði um næstum 25 prósent frá árinu 2001 til 2009 samkvæmt nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum.

Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðana skýrir frá þessu og segir að framfarir í meðferð, forvörnum og ummönnun HIV smitaðra skýri þennan góða árangur. Stofnunin segir hinsvegar að þessar góðu fréttir eigi ekki við í öllum löndum heimsins og að í fátækari löndum sé vandamálið enn gríðarlegt og aðgangur að meðferðarúrræðum takmarkaður. Við lok ársins í fyrra voru 34 milljónir manna smitaðar af HIV veirunni sem veldur alnæmi og árið 2009 smituðust 2,6 milljónir manna. Um sex milljónir manna í fátækustu löndum heimsins fengu lyfjameðferð við veirunni en tæplega tíu milljónir hafa ekki aðgang að lyfjum.

Skýrslan bendir einnig á að þrátt fyrir að smitum fari fækkandi þegar á heildina sé litið sjáist þó aukning á milli áranna 2008 og 2010 í sumum hópum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×