Skoðun

Þú getur hjálpað okkur að eyða því versta

Þóra Jónsdóttir skrifar

Í dag er alþjóðlegi netöryggisdagurinn. Netöryggi barna er aðalviðfangsefni þessa dags. Börn eiga rétt á að njóta öryggis og rétt á vernd gegn ofbeldi, á neti sem og annars staðar.

Á vef Barnaheilla er að finna Ábendingalínu þar sem hægt er að tilkynna um efni af netinu sem varðar ofbeldi gegn börnum eða annað ólöglegt efni sem tengist börnum. Dreifing nektarmynda af börnum, einstaklinga undir 18 ára, telst þar með.

Mörg dæmi eru til um það að börnum hefur verið bjargað úr hættu og ofbeldisaðstæðum víðsvegar í heiminum, vegna samvinnu almennings með tilkynningum til ábendingalína og lögreglu, sem bregðast við með snörum og réttum hætti. Það er því góður möguleiki á því að hafa áhrif á stöðu barna, sem eru þolendur ofbeldis á neti, jafnvel þó þau séu frá fjarlægum löndum.

Nýlega opnuðu Barnaheill nýja Ábendingalínu sem nú er aldursskipt og barnvæn. Ábendingalínan er hluti af SAFT verkefninu og nýtur styrkja frá Evrópusambandinu og fleiri aðilum. Ábendingalínan er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi undir hatti Inhope, regnhlífasamtaka ábendingalína um heim allan.

Nýtt einkenni Ábendingalínunnar er strokleður, sem táknar það sem hægt er að gera ef upplýsingar fást um ólöglegt og óviðeigandi efni sem varðar börn á netinu. Við því er þá hægt að bregðast og vinna að því að efnið verði fjarlægt af netinu, að stroka það út.

Inni á Ábendingalínunni er að finna stuðning við þá sem tilkynna og leiðbeiningar um hvert skuli leitað ef hætta er á ferðum eða viðkomandi er í neyð. Sér hnappur er fyrir aldursflokkinn 14 ára og yngri, annar fyrir börn 15-17 ára og sá þriðji fyrir 18 ára og eldri.

Mikilvægt er að tilkynnt sé um allt efni sem varðar ofbeldi gegn börnum og finnst á netinu, hvar svo sem þau kunna að vera í heiminum. Óháð því hvort um er að ræða ný eða gömul brot. Þegar tilkynning berst um efni sem inniheldur ofbeldi gegn börnum fer af stað lögreglurannsókn, unnið er að því að láta fjarlægja efnið af netinu innan 48 klst. frá því tilkynning berst og að koma barninu sem hefur mátt þola ofbeldið til hjálpar.

Ef þú verður var við ofbeldi gegn börnum á netinu skaltu tilkynna það til ábendingalínunnar. Þú getur hjálpað okkur að eyða því versta.

Höfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×