Innlent

Nýr framkvæmdastjóri OR

Jakob Sigurður Friðriksson
Jakob Sigurður Friðriksson MYND/OR

Jakob Sigurður Friðriksson verkfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Undir hann heyra einnig framkvæmdir Orkuveitunnar.

Jakob lauk Cand. Sc.- prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og M. Sc.- prófi frá sama skóla árið 1996.

Hann hóf störf sem verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur árið 1991. Hann varð síðar yfirmaður þjónustudeildar Hitaveitunnar, sem sinnti viðskipta- og tækniþjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins. Í námsleyfi sínu árið 1995 stundaði Jakob rannsóknir á hitaveitusviði við Tækniháskólann í Helsinki. Jakob var sviðsstjóri þjónustusviðs Hitaveitunnar til 1999. Þá var Orkuveita Reykjavíkur stofnuð og var hann ráðinn sviðsstjóri sölusviðs. Hann flutti 2000-2002 til Nýja Sjálands. Þar vann hann við verkefnastjórnun á verkfræðistofunni Dobbie Engineers Ltd.

Við heimkomuna var Jakob aftur ráðinn til Orkuveitu Reykjavíkur og vann fyrst í stað að ýmsum sérverkefnum fyrir yfirstjórn fyrirtækisins, s.s. við stefnumótun, markaðsmál og ýmis verkfræðileg og fjárhagsleg verkefni. Hann tók einnig virkan þátt í útrás fyrirtækisins.

Frá ársbyrjun 2006 hefur Jakob verið sviðsstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur og hefur haft umsjón með samningum og samskiptum við sveitarstjórnirnar 20 á veitusvæði fyrirtækisins.

Jakob er fertugur. Hann er kvæntur Helgu Einarsdóttur sem vinnur við endurhæfingu blindra og sjónskertra. Þau eiga þrjú börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×