Erlent

Lýsa yfir neyðar­á­standi í Stokk­hólmi: Laun tvö­faldast og vinnu­vikan fer í 48 tíma

Atli Ísleifsson skrifar
Alls eru nú 333 dauðsföll rakin til Covid-19 í Svíþjóð. 
Alls eru nú 333 dauðsföll rakin til Covid-19 í Svíþjóð.  EPA

Sérstöku neyðarástandi hefur verið lýst yfir í heilbrigðisumdæmi Stokkhólms í Svíþjóð vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sænskir fjölmiðlar segja frá því að ákvörðunin hafi í för með sér að hægt verði að flytja starfsfólk á gjörgæsludeildum milli heilbrigðisstofnana í umdæminu, að vinnuvikan verði lengd í 48 tíma og að laun þess starfsfólks hækki umtalsvert.

Sérstakt neyðarálag, sem hljóðar upp á 120 prósent af grunntaxta, verður greitt fyrir hverja unna vinnustund, sem þýðir að tímakaup umræddra starfsmanna verður 220 prósent af venjulegum launum.

Dauðsföllum fjölgar um 51

Skráðum dauðsföllum sem rakin eru til Covid-19 í Svíþjóð hefur nú fjölgað um 51. Þetta kom fram á upplýsingafundi sænskra heilbrigðisyfirvalda í hádeginu, en alls eru þá 333 dauðsföll í landinu rakin til kórónuveirunnar.

Á upplýsingafundinum kom ennfremur fram að alls séu skráð smit nú 6.078 og njóta 469 sjúklingar aðhlynningar á gjörgæslu.

Enn á leiðinni upp brekkuna

Anders Wallensten, aðstoðarsóttvarnarlæknir Svíþjóðar, sagði ljóst að Svíar væru enn á leiðinni upp brekkuna í „kúrfunni“. Hann sagði að ljóst að flestir þeir sem láta lífið séu í elsta aldurshópnum og að karlmenn séu í naumum meirihluta látinna.

„Dauðsfjöllum heldur áfram að fjölga. Nú erum við með 333 látna,“ sagði Wallensten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×