Íslenski boltinn

Fjórtán ára tryggði Leikni sigurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Quental Árnason, hetja Leiknis gegn Fram.
Róbert Quental Árnason, hetja Leiknis gegn Fram. mynd/twitter-síða leiknis

Róbert Quental Árnason, strákur fæddur árið 2005, tryggði Leikni R. sigur á Fram, 2-3, í seinni leik dagsins á Reykjavíkurmótinu.

Róbert skoraði sigurmark Leiknismanna skömmu fyrir leikslok. Leiknir er í 2. sæti B-riðils með fjögur stig en Fram er í því fjórða og neðsta án stiga.



Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, kom Breiðhyltingum tvisvar yfir í leiknum en Þórir Guðjónsson og Albert Hafsteinsson jöfnuðu fyrir Framara.

Tveir leikmenn fengu að líta rauða spjald; Gunnar Gunnarsson úr Fram og Leiknismaðurinn Ernir Freyr Guðnason.

Í fyrri leik dagsins vann Valur öruggan sigur á bikarmeisturum Víkings, 3-0.

Patrick Pedersen, Einar Karl Ingvarsson og Haukur Páll Sigurðsson skoruðu mörk Valsmanna sem eru með sex stig á toppi B-riðils. Víkingar eru með eitt stig í 3. sætinu.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×