Skoðun

 Hroki

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Ég nýt þeirra lífsgæða að hafa hvorki áhuga né vit á knattspyrnu en mun meiri áhuga á mannlegu eðli. Hef þess vegna staldrað sérstaklega við tilfinningahitann, hatur og ást fólks á mönnum sem það þekkir ekki neitt í kringum HM.

Sýnist þessi Rónaldó og Messi helst hafa unnið sér það til óhelgi að vera milljón sinnum betri í fótbolta en „strákarnir okkar“.

Formælingarnar og fúkyrðin sem hafa dunið á Rónaldó eru sérlega áhugaverð. Ég fæ ekki betur séð en að maðurinn sé ótrúlega hæfileikaríkur, einbeittur og einarður.

Alveg átakanlega íslenskt að hatast við hann fyrir að vera góður með sig og að hafa dirfst að gera lítið úr heilögu strákunum okkar á EM. Í HM-fárinu hef ég tekið eftir að Íslendingar eru aldrei yfir það hafnir að gera lítið úr fólki sem skyggir á þá með yfirburða hæfileikum.

Amma mín sagði mér fyrir margt löngu að það væri ekkert að hroka ef fólk getur staðið undir honum og mér sýnist Rónaldó hafa full efni á að sýna hroka og yfirlæti. Hann er góður í sínu sporti. Á heimsmælikvarða.

Herra Hroki er samt farinn heim og þá er ekkert annað í stöðunni en að halda með Englandi. Hrokafull þjóð, þótt deila megi um innistæðuna. England mun samt leggja fulltrúa einnar jafnleiðinlegustu þjóðar heims, Svía, á laugardaginn og Svíar geta sjálfum sér um kennt.

Hvernig datt þeim í hug að nota ekki flottasta hrokagikk síðari tíma, Zlatan Ibrahimovic, á þessu móti? Hroki Zlatans er svo tær og réttmætur að meira að segja anti-sportisti eins og ég getur ekki annað en hrifist með. Hann er maður þeirrar sjaldgæfu gerðar að hann er búinn að vinna áður en hann reimar á sig takkaskóna.

Ágætt að Svíar eru kjánar. Áfram England!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×