Breskur dómstóll telur að Sjeik Mohammed bin Rashid al-Maktoum, leiðtogi Dúbaí, hafi látið ræna dætrum sínum, og hótað eiginkonu sinni. Niðurstöðurnar voru birtar í tengslum við mál sem Haya prinsessa, eiginkona Maktoum, höfðaði eftir að hún flúði til Bretlands í fyrra.
Sjeik Maktoum reyndi að koma í veg fyrir að niðurstöður dómstólsins yrðu birtar opinberlega. Haya prinsessa hefur sagst óttast um líf sitt eftir að hún flúði Dúbaí ásamt tveimur börnum þeirra í fyrra.
Sjeikinn er talinn hafa látið ræna Sjeikja Shamsa, annarri dóttur hans, og snúa henni með valdi aftur til Dúbaí þegar hún dvaldi á Englandi árið 2000. Hún er sögð hafa verið sprautuð með róaandi lyfi og henni haldið í Dúbaí allar götur síðan.
Þá er Maktoum talinn bera ábyrgð á sambærilegri meðferð á Sjeikha Latifa, annarri dóttur hans, bæði árið 2002 og 2018. Í fyrsta skiptið lét sjeikinn halda Latifu í fangelsi í þrjú ár. Fyrir tveimur árum var hún stöðvuð á hafi úti þegar hún flúði Dúbaí. Hún er nú sögð í stofufangelsi. Breski dómarinn taldi ásakanir hennar um alvarlegt ofbeldi sem teldust pyntingar trúverðugar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Haya prinsessa varð sjötta og yngsta eiginkona Maktoum árið 2004. Þau eiga saman tvö börn sem eru sjö og ellefu ára gömul. Hún segist hafa flúið Dúbaí eftir að hún fór að grenslast fyrir um örlög dætra Maktoum en hann hafði fullyrt að þeim hefði verið „bjargað“.
Dómari féllst á rök Hayu um að hún hafi verið fórnarlamb ógnana útsendara eiginmanns hennar. Þannig hafi byssa með öruggið af í tvígang verið skilin eftir á kodda hennar og þyrlu lent fyrir utan húsið hennar með hótun um að hún yrði flutt nauðug í eyðimerkurfangelsi.